Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loftslagsmálin prófraun á íslenskt stjórnkerfi

23.06.2020 - 22:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Stjórnsýslan í loftslagsmálum er um margt veik og óskilvirk, samkvæmt drögum að skýrslu sem Capacent vinnur fyrir Loftslagsráð. Umhverfisráðherra segir að endurskoðuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði prófraun á íslenskt stjórnkerfi.

Í skýrsludrögum Capacent er bent á að óskýr ábyrgðar- og verkaskipting milli ráðuneyta og skortur á heildarsýn í loftslagsmálum geti gert það að verkum að Ísland nái ekki alþjóðlegum markmiðum sínum í loftslagsmálum.

Stjórnvöld kynntu endurskoðaða aðgerðaáætlun í dag þar sem verja á 46 milljörðum til loftslagsmála næstu fimm árin til þess að tryggja að hægt sé að standa við skuldbindingar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.

„Skýrslan er mjög mikilvæg til þess að draga saman hvað má gera betur. Ég held að þetta sé bara ákveðin prófraun á okkar ágæta stjórnkerfi. Það má alltaf bæta hlutina og samhæfa betur og það er markmiðið, en ég hef ekki áhyggjur af því að við munum ekki standa okkar plikt í þessu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Flókið að vinna þvert á ráðuneyti

Meðal þess sem skýrsluhöfundar Capacent benda á er að stjórnvöld eru ekkert sérstaklega vön að vinna að verkefnum þvert á ráðuneyti, eins og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum gerir ráð fyrir.

„Reynslan er sú að það er flókið að vinna þvert á ráðuneyti. Í þessu tilviki eru sjö ráðherrar og sjö ráðuneyti sem koma að málinu. En eins og þessi áætlun sýnir þá er það mjög skýr og einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar allrar sem er á bak við hana þannig að ég held að þetta sé gott dæmi um það hvernig ráðuneyti geta unnið vel saman,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Meðal tillagna til úrbóta í skýrsludrögunum er að auka gagnsæi um aðgerðir og stefnumótun, skýra hlutverk Loftslagsráðs og virkja vísindasamfélagið með betri hætti.

„Við erum að takast á við að gera þetta betur og munum að sjálfsögðu líta til þeirra tillagna sem í þessari skýrslu er að finna,“ segir Guðmundur Ingi.