Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kemur ekki á óvart að náttúran lúti í lægra haldi

23.06.2020 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Formaður Landverndar segist ekki hissa á ákvörðun Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að stöðva ekki framkvæmdir við nýjan Vestfjarðaveg um Teigsskóg í Reykhólahreppi. Það sé fremur regla en undantekning að náttúran lúti í lægra haldi.

Landvernd fór fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan skorið yrðu úr tveimur kærum sem liggja fyrir vegna framkvæmdaleyfis um lagningu vegarins.

„Við erum að sjálfsögðu leið, en þetta kemur ekki á óvart. þetta hefur verið mjög algengt að það er framkvæmdaaðili sem fær að njóta vafans en ekki náttúran. Nú gerist það einu sinni enn,“ segir Tryggvi Felixson, formaður Landverndar.

Vegagerðin sagði fréttastofu í gær að framkvæmdaráætlun hefði verið endurskoðuð. Nú skuli hefjast handa á þeim vegarköflum sem minnst sé deilt um. Byrjað verði á framkvæmdum inn Gufufjörð en aðrir kaflar bíði.

„Það er þó bót í máli að framkvæmdaaðili ætlar að sýna ákveðna tillitsemi og haga framkvæmdum þannig að ekki verði veruleg spjöll þar til fæst endanlegur úrskurður í þessu máli,“ segir Tryggvi.

Segir jarðgöng bestu samgöngubótina

Hann undirstrikar að Landvernd hafi ávalt haldið á lofti leiðarvali sem gerði ráð fyrir jarðgöngum og segir það besta kostinn.

„Fyrst förum við yfir heiðarnar og spillum þeim og svo spillum við ströndinni. En við vitum það að einhvern tímann verða lögð jarðgöng því það er besta samgöngubótin. Af því höfum við mjög góða reynslu víða á Íslandi, en það virðist ekki vera þolinmæði eða áhugi fyrir því að skipuleggja samgöngur með þeim hætti.“