Keðjusögin getur komið manni í form

23.06.2020 - 14:11
Mynd: RÚV / RÚV
Það er yfirleitt friðsælt í skóginum á Hólum í Hjaltadal en þegar Sumarlandann bar þar að garði hafði fuglasöngur og gjálfur í vatni vikið fyrir háværu urri í keðjusögum. Þar var námskeið í skógarhöggi þar sem nemendur fengu skólun í að grisja og fella tré á öruggan hátt.

„Landbúnaðarháskóli Íslands er með námskeið fyrir fólk á þessu svæði sem vill læra hvernig á að gera þetta rétt og örugglega. Hér er söngur sagarinnar hár og flottur,“ segir Björgvin Eggertsson kennari við Landbúnaðarháskólann á Hólum. Hann segir mikilvægt að taka mið af því að hvert tré er einstakt og það sé mikilvægt að skoða hvernig það er vaxið áður en hafist er handa við að saga. Og það þarf líka að huga að öryggismálum. „Þetta er mjög hættulegt og það er alltaf einhver sem slasar sig á hverju ári,“ segir hann. „Ástæðan fyrir því er fljótfærni, kunnáttuleysi eða bara ekki rétt rökhugsun miðað við aðstæður.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgvin Eggertsson kennir upprennandi skógarhöggsmönnum réttu tökin.

Tólf manns sóttu námskeiðið og segir Björgvin að hópur lærðra skógarhöggsmanna fari ört vaxandi á Íslandi. „Það fjölgar alltaf í hópnum og það er mismunandi hvernig fólk ætlar að nota þetta. Sumir ætla að nota kunnáttuna aðallega heima við, við sína sumarhúsaslóð eða í garðinum. Aðrir ætla að aðstoða bóndann á næsta bæ eða skógareigandann þar,“ segir hann en bætir því við að skógarhöggslistin sé líka gagnleg þeim sem vilja koma sér í gott andlegt og líkamlegt form. „Þetta er erfið vinna svo margir sjá þarna tækifæri til að festast ekki inni á einhverjum líkamsræktarstöðvum heldur geta þeir sett í gang  keðjusögina, farið að grisja og haldið sér þannig í fínu formi. Gert tvennt eða þrennt í einu, þjálfað líkamann, þjálfað hugann og notið þess að vera úti.“

Gísli Einarsson ræddi við Björgvin Eggertsson í Sumarlandanum á RÚV.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
gislie's picture
Gísli Einarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi