Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hvetja ráðherra til að birta gögn um sjókvíaeldi

23.06.2020 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bæjarráð Fjallabyggðar hafnar því að ákvarðanir verði teknar um takmarkanir eða bann við fiskeldi í Eyjafirði nema að undangengnum vísindalegum rannsóknum. Ráðherra er hvattur til þess að ljúka við og birta án tafar allar niðurstöður rannsókna um burðarþol og áhættumat í firðinum.

Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í morgun var tekin fyrir beiðni Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um umsögn sveitarfélagsins á því hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði.

Vísindalegar rannsóknir verði að liggja að baki ákvörðun 

Í umsögn bæjarráðs er því hafnað að nokkrar ákvarðanir verði teknar af ráðherra um takmarkanir eða bann við fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin verður frá Siglunesi að Bjarnarfjalli, nema að undangengnum vísindalegum rannsóknum. „Telur bæjarráð að stórar ákvarðanir um málefni sem getur varðað framtíðarhagsmuni og þróun samfélags í Fjallabyggð til langrar framtíðar megi ekki taka nema til þeirra sé vandað og upplýsingar úr niðurstöðum rannsókna leika þar lykilhlutverk,“ segir jafnaframt.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Frá fundi um fiskeldismál á Akureyri í júní

Ekki tímabært að veita ráðherra endanlega umsögn

Bæjarráð telur að ákvörðun ráðherra um mögulegt fiskeldi í Eyjafirði til framtíðar geti ekki byggst á óljósum kennisetningum eða trúarbrögðum. Af þeim sökum sé ekki tímabært að veita Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra endanlega umsögn um það hvort banna eigi fiskeldi í sjókvíum í Eyjafirði.

Hvetja ráðherra til að birta gögn um burðarþol og áhættumat

Þá hvetur bæjarráð Fjallabyggðar Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eindregið til þess að ljúka við og birta án tafar allar niðurstöður rannsókna um burðarþol og áhættumat sem unnar hafa verið í firðinum varðandi mögulegt eldi.