Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hrinan stendur enn yfir

23.06.2020 - 20:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jarðskjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar er enn yfirstandandi. Heldur hefur þó dregið úr virkni frá því í gær. Þetta kemur fram í athugasemdum jarðvísindamanns á vef Veðurstofu Íslands.

Um 300 skjálftar mældust í nótt en þeir voru allir undir 3,0 af stærð. Í morgun urðu tveir skjálftar með fimmtán mínútna millibili. Hinn fyrri var 3,2 af stærð en sá síðari 3,4. Allir skjálftar sem mælst hafa eftir hádegi hafa verið minni en 3,0. 

Í gær mældust yfir 1.500 jarðskjálftar. Þess stærsta varð vart laust upp úr hádegi um þrjátíu kílómetrum norðaustan af Siglufirði en hann var af stærð 4,0. 

Jarðskjálftahrina hófst í Tjörnesbrotabeltinu þann 19. júní en þrír skjálftar yfir 5 af stærð hafa mælst í hrinunni. Óvissustig er enn í gildi vegna skjálftavirkninnar.

 

 

Mynd með færslu
Jarðskjálftar síðustu 48 klst. Grænar stjörnur sýna skjálfta yfir 3,0.
Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV