Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hiti mældist 38 gráður við heimskautsbaug

23.06.2020 - 18:12
Erlent · Heimskaut · hitabylgja · hitamet · Rússland · Síbería · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hiti mældist 38 gráður á celsíus í bænum Verkhojansk í Síberíu á laugardag. Ef Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) staðfestir þessa mælingu er um að ræða hæsta hita sem mælst hefur innan heimskautsbaugs. Hitabylgja gengur nú yfir Síberíu.

Verkhojansk er 1300 manna bær innan norðurheimskautsbaugs í austanverðri Síberíu. Bærinn er á breiddargráðu 67,5 norður en til samanburðar er Grímsey á breiddargráðu 66,5 norður. 

Svæðið er þekkt fyrir miklar öfgar í veðurfari. Vetur eru fimbulkaldir á þessum slóðum en mesti kuldi sem mælst hefur í Verkhojansk er −67,8 gráður á celsíus. Hiti getur orðið talsvert hár á sumrin. Ekki er óalgengt að hann mælist hærri en 30 gráður í júní, júlí og ágúst. 

Núverandi hitamet í Verkhojansk er 37,3 gráður. Það féll í mikilli hitabylgju í lok júlí 1988. Hæsti hiti sem mælst hefur innan heimskautsbaugs er hins vegar 37,8 gráður. Metið féll árið 1915 í Fort Yukon í Alaska. 

Samkvæmt Alþjóðaveðurfræðistofnuninni er hlýnun heimskautasvæða tvöfalt hraðari um þessar mundir en í öðrum heimshlutum. Fyrir vikið hefur umfang hafíss á heimskautaslóðum minnkað verulega. Þá hefur hiti verið óvenjulega hár í Síberíu í vor og gróðureldar hafa geisað á svæðinu frá því í apríl. 

Á kortinu hér fyrir neðan má sjá staðsetningu bæjarins Verkhojansk.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV