Hin órólegu – Linn Ullmann

Mynd: Bjartur/EPA / Bjartur/EPA

Hin órólegu – Linn Ullmann

23.06.2020 - 16:58

Höfundar

Til að geta skrifað um raunverulegt fólk er nauðsynlegt að gera það að skáldskap, segir Linn Ullmann á einum stað í skáldsögu sinni um hina heimsfrægu foreldra sína, leikkonuna Liv Ullmann og leikstjórann Ingmar Bergmann.

Bók vikunnar er Hin órólegu eftir Linn Ullmann sem er nýkomin út hjá Bjarti í þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur. Í skáldsögunni segir Linn Ullmann sögu sína með þessum frægu foreldrum sem aldrei urðu hjón. Linn ólst upp hjá móður sinni, sem er á miklum ferðalögum enda er hún í bernsku Linnar í óðaönn að byggja upp sinn feril. Hún er mikið í burtu, í Hollywood, New York og víðar. Stundum fær dóttirin, stelpan, eins og hún er kölluð í sögunni, að fara með henni og búa hjá henni. Reyndar býr hún þá frekar með hverri barnapíunni á fætur annarri.

Aðeins einn mánuð á ári dvelur hún hjá föður sínum, í Hammers á eyjunni Fårö. Þar er fallegt, mörg hús, púl og bíó og ótal konur, ekki síst síðasta eiginkona hans, Ingrid, sem hugsa um allt hið hversdagslega í lífi föðurins sem var orðinn fjörutíu og fimm ára þegar Linn fæddist.

Linn Ullmann fetaði ekki í fótspor foreldra sinna á leiksviði eða á hvíta tjaldinu þótt hún léki sem barn í nokkrum kvikmyndum. Hún varð rithöfundur og telst í dag til merkustu rithöfunda Noregs. Hin órólegu eru sjöunda skáldsagan sem hún gefur út og hún er vissulega sannsöguleg og ekkert dregið undan.

Það hafði á sínum tíma verið ákvörðun þeirra feðginanna að hún skrifaði bók um föður sinn en þau drógu of lengi að byrja á því og faðirinn þá orðinn þrotinn að kröftum, andlegum jafnt líkamlegum. Höfundur bókarinnar hin órólegu hefur ekki margt í hendi að byggja á, nokkrar myndir, nokkrar miða, dagbókarfærslur og fáeinar segulbandsupptökur auk eigin minninga enda er þetta ekki bók um leikstjórann mikla Ingmar Bergmann og þetta er heldur ekki bók um stórleikkonuna Liv Ullmann heldur er þetta bók um manneskjurnar Ingmar og Liv og lífið sem þau lifðu, hvort í sínu lagi með sameiginlegu afkvæmi sínu Linn sem lifir í stöðugri angist um að foreldrarnir muni hverfa frá sér. Móðirin fer vissulega en hún kemur aftur, faðirinn er hins vegar gamall og að lokum er hann ekki lengur.

Þetta er bók um ellina og dauðann en líka um æskuna og baráttuna fyrir því að skapa sér nafn og frama alþjóðlega í leiklistinni, þetta er saga um minni og gleymsku, konur og karlmenn, um ljós og skugga lífsins.

Í spilaranum má heyra þýðandann Ingibjörgu Eyþórsdóttur lesa stuttan kafla úr síðari hluta bókarinnar auk þess sem rætt er við Ingibjörgu um bókina og verkefnið að þýða hana.

Umsjónarmaður þáttarins Bók vikunnar að þessu sinni er Jórunn Sigurðardóttir og viðmælendur hennar í þættinum eru þau Guðrún Elsa Bragadóttir bókmenntafræðingur og Stefán Baldursson leikstjóri.  

Mynd: cc / cc