Hildur með slitið krossband

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hildur með slitið krossband

23.06.2020 - 22:20
Hildur Antonsdóttir, miðjumaður Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta, er með slitið krossband í hné og leikur ekki meira með liðinu á leiktíðinni.

Hildur fór meidd af æfingu liðsins í gær og Þorsteinn Halldórsson staðfesti við Fótbolti.net í kvöld að hún væri með slitið krossband. Hún er því frá það sem eftir lifir af yfirstandandi leiktíð.

Hildur er ekki fyrsti leikmaður Breiðabliks sem slítur krossband eftir að grasvelli félagsins var skipt úr fyrir gervigras vorið 2019 en Selma Sól Magnúsdóttir sleit krossband í leik Breiðabliks við Val í Kópavogi síðasta haust.

Hin 25 ára gamla Hildur var öflug með liði Blika í fyrra og hlaut landsliðssæti í febrúar eftir vasklega framgöngu sína með liðinu síðasta sumar. Hún á að baki 168 mótsleiki með Breiðabliki, HK/Víkingi og Val.

Breiðablik fór taplaust í gegnum Íslandsmótið í fyrra en lenti samt sem áður í öðru sæti deildarinnar á eftir Íslandsmeisturum Vals. Liðið vann öruggan 6-0 sigur á KR í kvöld, er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína í deildinni og á enn eftir að fá á sig mark.