Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gerðardómur skili eigi síðar en 1. september

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ef miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins verður samþykkt á gerðardómur að skila úrskurði eigi síðar en 1. september. Ef tillagan verður felld verða að líða rúmar tvær vikur þar til verkfall gæti hafist. Atkvæðagreiðsla um tillöguna hefst á morgun og lýkur á laugardag.

Sátt við gerðardóm 2015

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem kjaradeila hjúkrunarfræðinga endar með því að gerðardómi er falið að úrskurða um laun þeirra og kjör. Reyndar með nokkuð ólíkum hætti. Árið 2015 stefndi í óefni á sjúkrastofnunum vegna verkfalla fjölmargra félaga innan BHM og hjúkrunarfræðinga. Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga, sem hófst 27. maí, hafði þá staðið yfir í þrjár vikur. Hjúkrunarfræðingar eru ekki innan vébanda BHM en það gekk hvorki né rak í samningaviðræðum. Það varð til þess að ríkisstjórnin ákvað að stöðva verkföllin með lögum. Annars vegar verkföll BHM-félaganna og hins vegar verkfall hjúkrunarfræðinga. Jafnframt var Hæstarétti falið að skipa þrjá dómara í gerðardóm sem fékk það verkefni að ákveða laun og kjör þessara hópa. Ákvörðun um BHM-félögin náði til tveggja ára en til fjögurra ára hjá hjúkrunarfræðingum. Niðurstaðan var að hjúkrunarfræðingar voru nokkuð sáttir við niðurstöðu dómsins um sín kjör. Í þessu tilfelli höfðu launamenn ekkert að segja um framvinduna því sett voru lög á verkföllin og gerðardómur skipaður.

Atkvæðagreiðsla hefst á morgun

Nú er umgjörðin önnur. Það eru ekki sett lög á deiluna heldur ákveður sáttasemjari að tefla fram miðlunartillögu, sem hann getur gert samkvæmt lögum. Þó er það þannig að samninganefndirnar verða að leggja blessun sína yfir að ríkissáttasemjari grípi til þessarar ráðstöfunar. Þetta þýðir að aðilar greiða atkvæði um miðlunartillöguna. Annars vegar ríkið eða fjármálaráðherra, sem mun væntanlega samþykkja tillöguna, og hins vegar verður rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún hefst á hádegi á morgun og lýkur á laugardaginn klukkan tíu árdegis. Ef hjúkrunarfræðingar samþykkja miðlunartillögu sáttasemjara skipar hann þrjá menn í gerðardóm sem verður falið að úrskurða launahækkanir hjúkrunarfræðinga.

Verkfall gæti hafist um miðjan næsta mánuð

En hvað gerist ef hjúkrunarfræðingar fella miðlunartillöguna? Í gær átti að hefjast ótímabundið verkfall. Því var afstýrt með miðlunartillögu sáttasemjara. Ef tillagan verður felld hefst verkfall ekki strax. Samkomulag er milli deilenda um að það geti ekki hafist fyrr en 17 dögum eftir að miðlunartillagan yrði felld. Tvær vikur þarf til að tilkynna verkfallið og svo líða þrír dagar að auki. Það þarf ekki að kjósa aftur um verkfall sem gæti hafist 14. júlí ef svo fer að tillagan verði felld. Líklega vilja fæstir hugsa þá atburðarás til enda. Hjúkrunarfræðingar hafa þegar fellt kjarasamning sem samninganefnd þeirra undirritaði 10. apríl.

Úrskurðar um launaliðinn

En hvað er í miðlunartillögunni? Enn ríkir trúnaður um innihaldið. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er sérstaklega kveðið á um að ekki megi birta efni hennar öðrum en þeim sem hlut eiga að máli án samþykkis sáttasemjara fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana.
Þegar hefur komið fram að gerðardómi verði falið að úrskurða um launaliðinn. En reyndar réttara sagt um hluta launaliðarins. Ekki er ágreiningur um að laun hjúkrunarfræðinga hækki um 68 þúsund krónur á samningstímanum, sem er í samræmi við lífskjarasamninginn. Krafa hjúkrunarfræðinga hefur verið að launin, grunnlaunin, hækki um 25% á samningstímanum. Sú krafa var lögð fram eftir að kjarasamningurinn var felldur. Lífskjarasamningshækkunin er metin á 14 til 15 prósent. Eftir standa því um 10% og um þau hefur verið tekist á við samningaborðið. Ríkið hefur ekki viljað fallast á þá hækkun. Hún geti sprengt forsendur lífskjarasamningsins og það er ríkið ekki tilbúið að fallast á. Aðkoma ríkisins að lífskjarasamningnum á almenna markaðnum fól í sér að semja ekki um meiri hækkanir  við opinbera starfsmenn.

Sjálf miðlunartillaga sáttasemjara er í raun aðeins tvær greinar þar sem væntanlega er gerð grein fyrir því hvert hlutverk gerðardóms eigi að vera. Hins vegar eru fylgiskjöl með tillögunni um 30 síður. Ekki hefur tekist að ná samkomulagi um launaliðinn en samningar hafa í raun tekist um öll önnur atriði. Þar ber hæst styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki sem felur klárlega í sér, eða getur falið í sér, talsverða launahækkun. Það fyrirkomulag á ekki að taka gildi fyrr enn í maí á næsta ári.

Eigi síðar en 1. september

Ef miðlunartillaga verður samþykkt tekur gerðardómur til starfa og fær tíma fram til 1. september til að skila úrskurði. Hins vegar er ljóst að aðrir hópar bíða líka eftir þeirri niðurstöðu. Það á til dæmis við um lögreglumenn og lækna sem á eftir að semja við. Niðurstaðan gæti líka haft áhrif á viðhorf verkalýðshreyfingarinnar þegar kemur að því að meta forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í haust.