GDRN og Skoffín á Innipúkanum sem snýr aftur í miðbæinn

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjar Snær Þrastarson - Innipúkinn

GDRN og Skoffín á Innipúkanum sem snýr aftur í miðbæinn

23.06.2020 - 15:43

Höfundar

GDRN, Emmsjé Gauti, Reykjavíkurdætur, Hipsumhaps og Skoffín eru meðal listamanna sem koma fram á Innipúkanum sem haldinn verður í Gamla bíói og á Röntgen um verslunarmannahelgina.

Þetta er í 19. skipti sem hátíðin er haldin en hún hefur yfirleitt verið í miðbæ Reykjavíkur þó í fyrra hafi Púkinn brugðið út af vananum og skellt sér út á Granda. Hann er nú kominn aftur í hjarta miðborgarinnar í Ingólfsstræti og stefnt er að því að loka hluta götunnar til að mynda hátíðarstemmingu. Aðaldagskrá hátíðarinnar verður inni í Gamla bíói en hliðardagskrá á Röntgen. Í tilkynningu frá aðstandendum kemur fram að boðið verði upp á fjölbreytta tónleikadagskrá föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld, 31. júlí til 2. ágúst, og klikkt út með að það sé alltaf gott veður á Innipúkanum.

Þeir listamenn sem hafa staðfest komu sína í ár eru Bríet, Emmsjé Gauti, Flóni, GDRN, gugusar, Hipsumhaps, krassasig, Mammút, Reykjavíkurdætur, Skoffín og Une Misére. Tilkynnt verður um fleiri listamenn á næstu dögum og vikum. Þá er ráðgerð ókeypis hátíðardagskrá utandyra í Ingólfsstræti með lista- og fatamarkaði, ásamt plötusnúðum og veitingasölu. Miðasala hefst í næstu viku.

Það var Dr. Gunni sem stóð fyrir fyrstu Innipúkahátíðinni sem var haldin í Iðnó árið 2002. Hann sagði við það tilefni við Fréttablaðið að hátíðin væri fyrir þá „sem hafa lært það af reynslunni að Reykjavík er besti staður landsins um þessa helgi. Þá fara svo margir leiðinlegir. Gelgjan hverfur og vitleysingarnir fara út á land. Eftir verður bara eðal mannlífsins.“ Meðal innipúkanna sem þá léku fyrir dansi í Iðnó voru Gleðisveitin Rúnk, Singapore Sling og Trabant.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hvort sem þú fórst til Eyja eða á Innipúkann

Tónlist

Kælan mikla meðal innipúka ársins

Tónlist

Mugison og Svala á Innipúkanum

Mynd með færslu
Tónlist

Innipúkinn: Amaba Dama og Jakob Frímann