Fyrstu stig Selfoss og Breiðablik valtaði yfir KR

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fyrstu stig Selfoss og Breiðablik valtaði yfir KR

23.06.2020 - 21:40
Þrír leikir voru á dagskrá er þriðja umferð Pepsi Max-deildar kvenna hófst í kvöld. Selfoss náði í sín fyrstu stig í sumar.

Selfoss heimsótti FH í Hafnarfjörð í kvöld en bæði lið voru án stiga fyrir leikinn. Selfosskonur gáfu út háleit markmið fyrir tímabilið og ljóst að liðið þurfti á stigum að halda til að eiga möguleika á að ná þeim markmiðum. Það tókst í kvöld en Anna Björk Kristjánsdóttir kom liðinu í forystu eftir hornspyrnu snemma leiks áður en Tiffany McCarty tryggði 2-0 sigur í síðari hálfleik.

Selfoss er því komið á blað en FH er enn án stiga.

Í Kópavogi tók Breiðablik á móti KR. Þar sáu Vesturbæingar aldrei til sólar en rétt rúmur hálftími var liðinn af leiknum þegar staðan var orðin 3-0 fyrir Blika og hafði Berglind Björg Þorvaldsdóttir skorað öll mörkin þrjú. Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö og Agla María Albertsdóttir eitt áður en yfir lauk og 6-0 lokatölur Breiðabliki í vil.

Breiðablik er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en KR er, rétt eins og FH, án stiga.

Í Árbæ tók þá Fylkir á móti nýliðum Þróttar. Fylkir hafði unnið báða leiki sína fyrir leik kvöldsins en Þróttur var í leit að sínum fyrstu stigum. Bryndís Arna Níelsdóttir kom Fylki í forystu eftir aðeins sjö mínútna leik en Stephanie Ribeiro jafnaði 1-1 á þriðju mínútu síðari hálfleiks. 1-1 stóð fram á 90. mínútu þegar Bryndís Arna virtist vera að tryggja Fylki sigurinn með sínu öðru marki í leiknum. Þróttarar voru þó ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát og tryggði Mary Vignola liðinu sitt fyrsta stig í sumar með jöfnunarmarki í uppbótartíma. 2-2 úrslit leiksins.

Fylkir er í öðru sæti deildarinnar með sjö stig en Þróttur er með eitt stig í 8. sæti, á undan stigalausum liðum FH og KR.

FH 0-2 Selfoss
0-1 Anna Björk Kristjánsdóttir (10‘)
0-2 Tiffany McCarty (58‘)

Breiðablik 6-0 KR
1-0 Berglind Björg Þorvaldsdóttir (14‘)
2-0 Berglind Björg Þorvaldsdóttir (17‘)
3-0 Berglind Björg Þorvaldsdóttir (32‘)
4-0 Sveindís Jane Jónsdóttir (52‘)
5-0 Agla María Albertsdóttir (74‘, víti)
6-0 Sveindís Jane Jónsdóttir (90')

Fylkir 2-2 Þróttur R.
1-0 Bryndís Arna Níelsdóttir (7‘)
1-1 Stephanie Ribeiro (48‘)
2-1 Bryndís Arna Níelsdóttir (90')
2-2 Mary Vignola (92')