Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forstjóri Wirecard handtekinn

23.06.2020 - 12:01
epa08503167 (FILE) - Then CEO of Wirecard, Markus Braun looks on at the Wirecard annual shareholders meeting in Munich, Germany, 18 June 2019 (reissued 23 June 2020). According to reports on 23 June 2020, former Wirecard CEO  Markus Braun has been arrested by Munich state prosecutors as part of investigations to the German payment processor after it admitted the estimated two billion euros it claimed to have in its balance sheet do not exist.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Markus Braun, fyrrverandi forstjóri þýska greiðslumiðlunarfyrirtækisins Wirecard, hefur verið handtekinn vegna gruns um markaðsmisnotkun. Allar líkur eru á að fyrirtækið hafi sett í reikninga sína tæpa tvo milljarða evra, sem hvergi eru til.

Wirecard hefur mikið verið í fréttum síðustu vikur vegna gruns um að ekki sé allt með felldu í starfsemi fyrirtækisins í Asíu. Tæplega tveir milljarðar evra, eða ríflega 300 milljarðar króna, hafa verið skráðir í áhættustýringu á Filippseyjum í uppgjöri fyrirtækisins. Endurskoðandi þess, Ernst & Young, neitaði að undirrita ársreikninga fyrirtækisins í síðustu viku þar sem þessir peningar finnast ekki. Meðal annars gátu starfsmennirnir ekki gefið upp númer á reikningunum þar sem peningarnir áttu að vera geymdir. 

Markus Braun forstjóri fyrirtækisins sagði af sér á föstudaginn vegna málsins. Seðlabanki Filippseyja lýsti því svo yfir að þessir peningar hefðu aldrei komið inn í bankakerfið þar í landi. Í gær upplýsti svo stjórn fyrirtækisins að þessir peningar væru líklega ekki til, en þeir eru um fjórðungur eigna fyrirtækisins, samkvæmt reikningnum þess. 

Saksóknari í München gaf í gærkvöld út handtökuheimild á Braun, en hann gaf sig svo sjálfur fram.

Verðgildi Wirecard hefur hríðfallið síðan byrjað var að fjalla um mál þess fyrir ári. Það var tuttugu og fjórir milljarðar evra fyrir tveimur árum, en er nú aðeins metið á tæpa þrjá milljarða evra.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV