Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fleiri „meme“ fyrir þessar forsetakosningar en áður

23.06.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsvert meira er af myndskilaboðum, sem kölluð eru „meme“ á ensku, á samfélagsmiðlum vegna forsetakosninganna um helgina en áður hefur verið fyrir slíkar kosningar hér á landi. Slík myndskilaboð voru mikið notuð í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum þegar Trump var kjörinn, segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar

Elfa Ýr, segir að ekki sé verið að rannsaka komandi kosningar frá sjónarhóli upplýsingaóreiðu og því ekki gott að segja til um hvað sé í gangi. Hún sem áhorfandi hafi tekið eftir mikilli notkun myndskilaboða á samfélagsmiðlum.
 
„Það hefur nátturlega líka verið í aðdraganda alþingiskosninga en kannski ekki í sama mæli í aðdraganda forsetakosninga.“
 
Skilaboðin geta verið mynd eða stutt myndband, oft með texta, með fullyrðingum eða skilaboðum. Stundum er verið að spila með ótta fólks en líka er oft grín í þeim. „Meme“ eru eins misjöfn og þau eru mörg og er oft beint að ákveðnum hópum.  

Skilaboð af þessu tagi hafa verið mikið notuð í kosningabaráttum víða erlendis og þau voru mikið notuð í aðdraganda kosninga í Bandaríkjunum 2016.
 
„Við sjáum það líka að það voru akkúrat svona myndræn skilaboð sem að Rússar eiga að hafa verið að pósta á samfélagsmiðlum í Bandaríkjunum. Og voru dregin tekin fram af Facebook fyrir bandaríska þingið sem dæmi um skilaboð eða auglýsingar sem Rússarnir eiga að hafa keypt þar í landi,“ segir Elfa Ýr. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV