Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Engin merki um sprungumyndanir

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Engin merki eru um að stórar sprungur hafi myndast í jarðskjálftahrinunni fyrir norðan landið. Skjálftarnir hleyptu einungis minni háttar skriðum af stað.

Dregið hefur úr jarðskjálftahrinunni í Tjörnesbelti undanfarinn sólarhring og stærsti skjálftinn það sem af er degi mældist 3,4. Stærsti skjálftinn til þessa var af stærðinni 5,8. Óvissustig er enn í gildi.

Vísindamenn fóru í yfirlitsflug í dag til að kanna hvort sprungur hafi myndast sem gætu verið undanfari berghlaups. Sáu þeir engar vísbendingar um að það hafi gerst. Þá voru aðstæður kannaðar í hlíðum þar sem þekkt er að skriðuföll verða og fundust einungis merki um minniháttar skriðuföll.

Vísindaráð Almannavarna fundaði með almannavarnarfulltrúum fyrir norðan í gegnum fjarfundarbúnað. Er næsti fundur fyrirhugaður í næstu viku. Að sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, verður áfram fylgst grannt með jarðhræringum á svæðinu.