Ekkert fyrirtæki hefur fengið lán

Mynd: Skjáskot / RÚV
Ekkert fyrirtæki á Íslandi hefur enn fengið brúarlán eða stuðningslán til að halda sjó vegna Covid-19 faraldursins. Lánin áttu að vera á meðal áhrifamestu efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar. Skatturinn hefur enn ekki opnað gátt til að sækja um stuðning til að greiða laun í uppsagnarfresti, þótt umsóknarfresturinn hafi runnið út fyrir þremur dögum.

Það eru meira en þrír mánuðir liðnir frá því að ríkisstjórnin kynnti fyrsta aðgerðapakka sinn vegna Covid-19 faraldursins. Síðan hafa tveir pakkar til viðbótar verið kynntir, samtals metnir á 350 milljarða króna. Flestar aðgerðirnar hafa þegar tekið gildi, en sumar af dýrustu og áhrifamestu aðgerðunum eru enn ekki komnar í gegn. 

Brúarlán til fyrirtækja voru einna fyrirferðarmest, og metin á 81 milljarð króna. Enn hefur ekkert fyrirtæki fengið slíkt lán, né heldur stuðningslán sem ætluð eru minni fyrirtækjum. 

Bankarnir áttu að afgreiða brúarlánin, og afgreiða átti stuðningslánin í gegnum stafrænt ísland.is, en hvorugt úrræðið er komið til framkvæmda.

Neikvæð áhrif

„Það hefur náttúrulega afar neikvæð áhrif,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. „Þetta eru fyrirtæki sem eru búin að eiga við tekjuleysi í rétt um þrjá mánuði og þau þurfa nauðsynlega á fjármagni að halda.“

Þá var ákveðið í lok apríl að ríkissjóður myndi aðstoða fyrirtæki að greiða hluta launakostnaðar starfsmanna á uppsagnarfresti. Sú leið átti að vera í boði frá 1. maí en hefur enn ekki verið virkjuð. Frestur fyrirtækja til að sækja um aðstoð vegna launagreiðslna um næstu mánaðamót rann út 20. júní, en gáttin til að sækja um aðstoð hjá skattinum hefur enn ekki verið opnuð, þremur dögum eftir að fresturinn rann út. 

„Og þá er komið ansi nálægt því að markmiði sé stefnt í hættu,“ segir Jóhannes Þór.„ Vegna þess að markmiðið var að hjálpa fyrirtækjum að komast í gegnum launagreiðslur á uppsagnarfresti, vegna þess að ekki væri til fé í þeim. Þannig að það er afar erfitt fyrir fyrirtækin langflest að fjármagna þessi launaútlát um mánaðarmótin. Þetta er verulegt áhyggjuefni að mínu mati.“

Vinna hörðum höndum að opnun gáttarinnar

Hjá Skattinum fengust þær upplýsingar að unnið sé hörðum höndum að því að opna gáttina, og umsóknarfresturinn um stuðning vegna launagreiðslna í maí verði framlengdur. En samanburðurinn við mörg önnur lönd er Íslandi í óhag. Fréttamaður talaði í dag við framkvæmdastjóra íslensks fyrirtækis sem rekur dótturfyrirtæki í öðru landi, þarlend stjórnvöld eru búin að styrkja fyrirtækið þrisvar sinnum en hér heima hefur ekkert gerst.

Minni eftirspurn en búist var við

„Það hefur kannski farið aðeins hægar af stað en menn bjuggust við. Það er vegna þess að eftirspurnin eftir þeim hefur verið minni en menn gerðu ráð fyrir,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. Hún segir að í millitíðinni hafi önnur úrræði litið dagsins ljós og fyrirtæki valið þau frekar en að ráðast í lántökur.

Katrín gerir þó ráð fyrir að eftirspurn eftir brúarlánum geti aukist í haust. „Það má gera ráð fyrir því.“ Hún bendir á að farið verði að veita stuðningslán á næstu dögum og gerir ráð fyrir að töluverður fjöldi fyrirtækja óski eftir þeim. Þau lán gagnast betur smærri fyrirtækjum. „Það eru fjölmörg önnur úrræði sem fyrirtækin hafa verið að nýta sér. Í mars síðastliðnum tóku lánveitendur sig saman um það að bjóða upp á greiðslufresti. Það hafa fyrirtæki verið að nýta sér töluvert.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Skilur að fólki finnist tafirnar skrítnar

„Þetta er í samtali,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, aðspurður hvers vegna aðgerðirnar væru ekki komnar lengra. „Ég hef fullan skilning á því að fólki finnist skrítið að það sé ekki búið að veita mörg af þessum lánum, en við fengum skjól, fengum frest af öðrum úrræðum til að undirbúa samninga við Seðlabanka og fjármálafyrirtæki, og nú eru allir þeir hnútar hnýttir. Það er ekkert í sjálfu sér sem við getum gert meira í stjórnkerfinu, nú er boltinn kominn til bankanna.“

Hvað með stuðningslánin og lokunarlánin?

„Ja, með stuðningslánin þá var á endanum ákveðið að færa framkvæmdina yfir til skattsins. Það kallar á ákveðinn lágmarksundirbúning hjá skattinum og hugbúnaðarsmíði, og sem betur fer er þeirri vinnu núna að ljúka sem gerir það að verkum að innan fárra daga verður hægt að ganga formlega frá umsóknum og byrja þá að afgreiða þau lánaúrræði. Það kallar á að fyrirtæki þurfi að fjármagna maí og júnímánuð en frá og með ekki síðar en um miðjan júlí þá verðum við búin að fara í gegnum eina umferð, og þá mun þetta ganga miklu hraðar fyrir sig að endurgreiða vegna júní, og svo áfram.“

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi