Djokovic með COVID-19 eftir mikið klúður

epa07712720 Novak Djokovic of Serbia celebrates winning against Roberto Bautista Agut of Spain during their semi final match for the Wimbledon Championships at the All England Lawn Tennis Club, in London, Britain, 12 July 2019. EPA-EFE/Tim Ireland / POOL EDITORIAL USE ONLY/NO COMMERCIAL SALES
 Mynd: EPA

Djokovic með COVID-19 eftir mikið klúður

23.06.2020 - 13:01
Efsti maður heimslistans í tennis, Novak Djokovic, er með staðfest COVID-19 smit. Djokovic hefur fengið mikla gagnrýni síðustu daga en fjölmargir tennisspilarar á Adria Tour, móti sem Djokovic stóð sjálfur fyrir, hafa nú greinst jákvæðir fyrir COVID-19.

Mótið hófst í Belgrad í Serbíu en færðist svo yfir til Zadar í Króatíu um helgina. En rétt fyrir helgi fóru að berast fregnir af því að einhverjir leikmenn á mótinu væru smitaðir af COVID-19. Búlgarinn Grigor Dimitrov og Króatinn Borna Coric staðfestu svo að þeir væru smitaðir og í kjölfarið var úrslitaleik mótsins aflýst. 

Serbinn Viktor Troicki og ófrísk eiginkona hans, Alexsandra, smituðust einnig og nú er Novak Djokovic sjálfur einnig kominn með COVID-19 sem og eiginkona hans Jelena. Flestir leikmenn mótsins sáust skemmta sér á næturklúbbum langt fram eftir nóttu og er talið líklegt að þeir hafi smitast þar frekar en á vellinum. 

Djokovic hefur fengið mikla gagnrýni fyrir skort á smitvörnum á mótinu og þá tókust keppendur í hendur fyrir og eftir leik. Djokovic sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann segist vera miður sín yfir því hve margir hafi smitast og segir það ljóst að veiran sé enn á kreiki í Serbíu. 

„Þegar við komum aftur til Belgrad fórum við í sýnatöku og við Jelena erum bæði jákvæð en börnin eru ekki smituð. Við lögðum mikið í þetta mót síðasta mánuðinn og var ætlunin að hjálpa ungum og upprenandi tennisspilurum frá Austur-Evrópu á meðan margar mótaraðir liggja í dvala vegna COVID-19,“ segir Djokovic í yfirlýsingunni, og bætir við að þau hjónin verði í einangrun næstu tvær vikur.