Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Blankur borgarstjóri og sjálfsvorkunn vegna veðurfars

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síðan Borgarlínan
Hvað gerir blankur borgarstjóri þegar hann sér ekki fram á að hafa efni á að standa við kosningaloforðin, spurði þingmaður Miðflokksins, í viðræðum um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þingmaður Pírata sagði að sér sýndist umræður um borgarlínu hvorki snúast um kostnað eða afstöðu til strætisvagna heldur um tíðaranda og menningu, þar sem fólk væri fast í gömlum hugmyndum um almenningssamgöngur og sjálfsvorkunn vegna veðurfars.

Seinni umræðu um samgönguáætlun lauk í hádeginu en skömmu síðar hófst önnur umræða um heimild til að stofna opinbert hlutafélag til að efla samgönguinnviði. Umræðan stóð frá skömmu fyrir eitt til klukkan þrjú. Þá var gert hlé vegna eldhúsdagsrumræðu í kvöld. 

Sjö þingmenn eru á mælendaskrá fyrir næstu umræðu um frumvarpið. Þeir eru sex þingmenn Miðflokksins og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. 

Efast um að 50 milljarða áætlun haldi

„Ég held að sú eyrnamerkta upphæð sem tilgreind er í samgöngusáttmálanum til borgarlínu, upp á 49,7 milljarða, ég held að það séu litlar líkur því miður á að hún haldi þegar á reynir,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Miðflokksmenn gagnrýndu mjög áform um borgarlínu í umræðu um samfélagsáætlun og héldu því áfram í umræðu um stofnun opinbers hlutafélags.

„Ábyrgð sveitarfélaganna á þessari framtíðaruppbyggingu er mikil hvað kostnaðarhliðina varðar,“ sagði Bergþór. Hann sagði að sveitarfélögin gætu bæði haft þau áhrif að framkvæmdir yrðu dýrari eða ódýrari en annars væri.“

„Við í þingflokki Miðflokksins höfum verið að tala á þeim nótum að það sé nauðsynlegt að tryggja þannig girðingar í þessum lögum um stofnun þessa opinbera hlutafélags að það verði ekki opinn krani fjárveitinga þegar kemur að framúrkeyrslu framkvæmdaverkefna. Við höfum lögt mikla áherslu á það að það verði alveg ljóst að þettaa félag, ef það verður stofnað, umi ekki sjá um rekstur borgarlínunnar komist hún á koppinn. Hættan er sú að þá fyrst byrji tapreksturinn að hlaðast upp.“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Bergþór Ólason.

Vegagerðin ekki í veikri stöðu gagnvart borginni

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði alveg tilefni til að taka undir áhyggjur af því hvernig framkvæmdir myndu ganga. Hann taldi þó ýmsar vörður til að fyrirbyggja að illa færi og spurði Bergþór Ólason. „Í fyrsta lagi, þegar hann segir að Vegagerðin verði í veikri stöðu gagnvart Reykjavíkurborg þá verður sérstök stjórn yfir þessu verkefni. Stjórnin er skipuð þannig að fjármálaráðherra skipar meirihluta hennar og sveitarfélögin minnihluta, þar af Reykjavík væntanlega einn af sjö í stjórninni. Erum við ekki sammála um þetta? Þannig að þetta hefur ekkert með Vegagerðina að gera. Erum við ekki sammála um að meginverkefni ríkisins í þessu séu aukaakreinar fyrir almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins? Við höfum ekki með að gera skipulagsvaldið á þeim þáttum samgöngukerfisins í höfuðborginni sem tilheyra sveitarfélögunum.“

Hann spurði Bergþór hvort þeir væru ekki sammála um að Sundabraut væri komin á dagskrá, að endurskoðunarákvæði væri í samkomulaginu og að það væri algjörlega skilyrt að rekstrarkostnaðurinn kæmi ríkinu ekki við heldur væri hann á herðum sveitarfélaganna.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Jón Gunnarsson.

Hvað gerir blankur borgarstjóri?

„Hvað gerir blankur borgarstjóri sem situr í fjárhagslegum rústum höfuðborgar Íslands og sárvantar pening til að efna kosningaloforð sín sem nota bene eru sennilega sverustu kosningaloforð sem gefin hafa verið fyrir nokkrar kosningar á Íslandi, ekki bara einu sinni heldur tvisvar,“ spurði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. „Þegar blanki borgarstjórinn sér að hann hefur ekki séns á því að standa við þessi kosningaloforð, hvað gerir hann þá? Hann hringir í vin. Og hver er vinur borgarstjórans í þessu tilfelli? Hver er sá sem ætlar að taka það að sér að fjármagna þessi villtu kosningaloforð borgarstjórans í Reykjavík? Sem reyndar var felldur tvisvar en uppreistur jafn harðan af bitlingaglöðu fólki. Jú, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlar að fjármagna þessi kosningaloforð.“

„Sjálfstæðisflokkurinn með fjármálaráðherrann í broddi fylkingar ætlar að verða sykurpabbi borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík í þessu máli og það er allt lagt undir,“ sagði Þorsteinn.

Mynd: Skjáskot / RÚV
Þorsteinn Sæmundsson.

Löngu tímabært að horfa til framtíðar

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði að merkt samkomulag um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu hefði náðst fyrir skemmstu milli sveitarfélaga og ríkisins. „Þarna koma að mörg sveitarfélög. Þarna koma að sveitarfélög sem stjórnað er víðsvegar að úr pólitíkinni. Það verður að telja að það séu nokkur tíðindi að allir þessir aðilar og síðan ríkið skuli ná saman um hvernig standa skuli að verkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Það er löngu tímabært að horfa til framtíðar og byggja upp trausta samgönguinnviði sem taka í senn mið af kröfum framtíðarinnar um loftslagsvænni samgöngumáta og þörfum samfélagsins til að byggja upp traustar og skilvirkar almenningssamgöngur. Um leið þarf að huga að því að bifreiðar komist um höfuðborgarsvæðið.

Jón Steindór sagði miklar umræður hafa orðið um borgarlínu. „Þar hefur margt verið sagt og ekki allt kannski mjög vel ígrundað.“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Jón Steindór Valdimarsson.

Tíðarandi og menning

„Mér sýnist þetta ekki snúast raunverulega um kostnað við borgarlínu, mér sýnist þetta ekki snúast raunverulega um það hvort fólk sé hlynnt strætó eða þykir strætó vera alveg glataður kostnaður. Ég held að þetta snúist um tíðaranda og menningu,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann kvaðst telja að hafa haft mikil áhrif að Ísland hefði komist á koppinn á sama tíma og einkabíllinn hafi rutt sér til rúms og þróast mjög hratt. „Þetta gerir það að verkum að mínu mati að tiltölulega stór hluti Íslendinga, og ekki síst Reykvíkinga, ofmetur mikilvægi þess að vera á hinum svokallaða einkabíl, og ofmeta mikilvægi þess að vera á hinum svokallaða fjölskyldubíl eins og hann er stundum kallaður núna og hafa ríka tilhneigingu til þess að gera lítið úr öðrum kostum.“

Helgi Hrafn sagðist telja að þetta mætti að einhverju leyti rekja til þess að Íslendingar vorkenni sér fyrir veðráttuna. Helgi Hrafn sagði að víða erlendis væri vont veður, og verra en hérlendis. „Í borgum þar sem strætó er notaður af fínu fólki, miðaldra fólki sem er komið á góðan stað í lífinu eftir ýmist strit yfir sína starfsævi, er með bindi og í jakkafötum og jafnvel með barnavagn, hugsa sér. Það þykir ekkert tiltökumál.“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Helgi Hrafn Gunnarsson.