Aftur útgöngubann í Þýskalandi

23.06.2020 - 11:53
epa08393695 A face mask sits next to a shoe in a store in Rosenheim, Germany, 30 April 2020. Due to the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus, the sustainable sports shoe company has added masks crafted from scrap fabric to its product portfolio.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA
Útgöngubann hefur verið sett á í héraðinu Gütersloh í vesturhluta Þýskalands, vegna annarrar bylgju Covid 19 þar. Þetta er í fyrsta sinn sem gripið er aftur til hertari aðgerða þar í landi eftir tilslakanir.

Armin Laschet ríkisstjóri í Norðurrín-Vestfalíu tilkynnti þetta í dag því veiran hefur stungið sér niður í sláturhúsi. Yfir 1.500 af 7.000 starfsmönnum þess hafa greinst með veiruna og þeir sem ekki hafa greinst hafa verið settir í sóttkví.

Útgöngubannið nær til 360 þúsund manns og gildi að minnsta kosti í viku, eða til 30. júní. Þetta þýðir að aðgerðum sem fyrst var gripið til í mars, og síðan aflétt í byrjun maí, verður komið aftur á. Kvikmyndahús, söfn, tónleikastaðir, barir, líkamsræktarstöðvar, sundlaugar og gufuböð verða lokuð og veitingastaðir geta aðeins selt mat sem er tekinn með heim. Þá má fólk aðeins hitta einn einstakling á almannafæri sem ekki býr á sama stað. 

Þjóðverjum hefur verið hrósað fyrir viðbrögð við útbreiðslu veirunnar sem hafa skilað góðum árangri. Nú óttast menn að ný bylgja sé að skella á. Hópsýkingar hafa komið upp víðar, meðal annars í fjölbýlishúsum í Neðra Saxlandi og Berlín. 370 fjölskyldur voru settar í sóttkví í Berlín. Vísindamenn telja þó enn sem komið er ekki ástæðu til að óttast aðra bylgju þar sem sýkingarnar eru staðbundnar.

Hópsýkingar í sláturhúsum hafa verið nokkuð tíðar að undanförnu, ekki aðeins í Þýskalandi heldur líka í Frakklandi. Þetta hefur beint athyglinni að vinnu- og búsetuskilyrðum starfsmanna, en margir þeirra eru erlendir, til að mynda frá Rúmeníu og Búlgaríu. Þýsk stjórnvöld hafa brugðist við þessu með því að banna að starfsmenn séu ráðnir í kjötiðnað í gegnum undirverktaka. Þetta er gert til að draga úr þeirri háttsemi sláturhúsa að fá millilið til að ráða til sín ódýrt vinnuafl.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi