300 skimaðir um borð í Norrænu

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Um 300 af þeim 460 farþegum sem koma til Seyðisfjarðar í dag með Norrænu þurfa að fara í sýnatöku þegar ferjan leggst að bryggju. Líkt og fyrir viku mun sýnatakan vera framkvæmd um borð í skipinu.  Ekki var að þessu sinni gerð tilraun til að senda senda heilbrigðisstarfsfólk til Færeyja svo hægt væri að framkvæma sýnatökuna á leiðinni til landsins.

Fréttavefurinn Austurglugginn greinir frá og segir að líkur megi leiða að því að þeir 160 farþegar sem ekki verði skimaðir fyrir kórónaveirunni séu að koma beint frá Færeyjum. Grænland og Færeyjar eru einu landsvæðin sem sóttvarnayfirvöld hér á landi skilgreina ekki sem áhættusvæði.

Fyrir viku stóð til að senda heilbrigðisstarfsfólks til Færeyja svo framkvæma mætti sýnatökuna á leiðinni til landsins. Veður í Færeyjum varð hins vegar til þess að ekkert varð af þessu. Segir Austurglugginn óvissu um verkfall hjúkrunarfræðinga, sem hefjast átti í gærmorgun, hafi orðið til þess að ákveðið var að skima aftur fyrir veirunni við komuna til Seyðisfjarðar. 

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hefur hins vegar áður greint frá því að frá og með næstu viku, þegar Norræna hefur siglingar samkvæmt sumaráætlun, verði óraunhæft að framkvæma sýnatökuna um borð í skipinu sem þá mun stoppa stutt á Seyðisfirði.
 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi