„Við hjónin ætluðum í sólstöðugöngu út á Stráka. Við vorum komin upp á Hádegisfell og vorum að horfa yfir. Ég hafði setið þarna á syllu nærri brúninni og var rétt staðin upp þegar ég heyri hljóð. Ég leit þá við og þá kom högg á bergið,“ sagði Ingibjörg í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
Skjálftahrinan úti fyrir Siglufirði hefur fundist víða um land en þrír skjálftar yfir fimm af stærð hafa orðið á síðustu tveimur sólarhringum, sá síðasti í gærkvöldi, 5,8 að stærð. Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.
Ingibjörg segir að sér hafi óneitanlega brugðið, ekki hvað síst við að sjá að sprungur höfðu myndast í berginu. „Þetta var mjög óhugnanlegt og manni stendur ekki á sama.“
Nokkuð grjóthrun hefur verið á svæðinu eftir þetta og segir Ingibjörg vissulega gæta ótta hjá mörgum Siglfirðingum vegna skjálftanna sem enn verður vel vart við. Sjálf var hún með matarboð í gær þegar sá stærsti gekk yfir.
Hún segir skjálftann hafa staðið nokkuð lengi yfir og borðið hafa hreyfst vel og eins hafi verið haldið við húsgögnin á meðan hann gekk yfir.
Skjálftahrinan hefur enn ekki verið tekin til umræðu í bæjarstjórn, en Elías Pétursson bæjarstjóri Siglufjarðar hefur fundað með almannavörnum og séð um að vera tengiliður milli þeirra og bæjarbúa.