Tveir ferðamenn með virkt smit á viku — 20 í sóttkví

Mynd: Júlíus Sigurjónsson / Júlíus Sigurjónsson
Ekkert innlent smit hefur greinst á síðustu viku eða síðan slakað var á ferðatakmörkunum. Síðan þá hafa fimm þúsund og fimm hundruð verið skimaðir á landamærunum. Ellefu af þeim hafa greinst með smit en aðeins tveir eru með virkt smit og eru þess vegna í einangrun. Níu eru með mótefni og því ekki smitandi. „Þannig ég held við getum sagt að hlutfallið er enn sem komið er mjög lágt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Endurskilgreina kröfu um sóttkví í flugi

„Rúmlega tuttugu einstaklingar hafa þurft að fara í sóttkví vegna sýkinga af því þeim mun fækka núna vegna þess að það er verið að taka í notkun nýjar skilgreiningar á áhættu á flugi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Fólki er gert að vera með grímur inni í flugvélinni og á flugvellinum og því er verið að endurskilgreina kröfu um sóttkví í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar. „Þá mun þörfin á sóttkví ef að greinist smit vera miklu minni en áður.“ Þórólfur segir að ekkert COVID-smit hafi greinst í flugi til þessa þrátt fyrir grun um það á alþjóðlega vísu.

Sjö með virkt smit á landinu

COVID-göngudeild Landspítala fylgist nú með sjö einstaklingum með virkt smit. „Enginn þeirra er alvarlega veikur. Þrír af þessum sjö eru lögreglumenn á Suðurlandi og smituðust sennilega af tveimur erlendum ferðamönnum sem einnig eru í einangrun,“ segir Þórólfur og vísar þá í mál þriggja Rúmena sem handteknir voru á Selfossi fyrr í mánuðinum grunaðir um þjófnað. Að auki fylgist COVID-göngudeildin með tveimur ferðamönnum sem hingað komu með virkt smit eftir 15. júní.

Greina niðurstöðurnar og flokka áhættusvæði

Þórólfur segir að með skimuninni á landamærunum fáist verðmætar upplýsingar um áhættusvæði. „Og getum væntanlega hagað skimuninni í samræmi við það í framhaldinu. Í lok þessari viku verður gerð tölfræði á smithættu frá ferðamönnum og munum við birta þá tölfræði þegar að því kemur,“ segir Þórólfur.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi