Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tryggja aukið fjármagn til framhalds- og háskóla

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Framhalds- og háskólum verður tryggt nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem greint var frá í dag.

Umsóknum um háskólavist fjölgar um 23% milli ára og gert er ráð fyrir að nemendum fjölgi þar um allt að 1.500 og um allt að tvö þúsund á framhaldsskólastigi, samkvæmt tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

Rektor Háskólans á Akureyri sagði í fréttum RÚV á föstudag að skólinn þyrfti að óbreyttu að hafna helmingi umsókna nema til kæmi aukið fjármagn frá stjórnvöldum. Samkvæmt tilkynningu menntamálaráðuneytisins verða fjárveitingarnar útfærðar við vinnslu fjáraukalaga þegar fjárþörf skólanna liggur endanlega fyrir.

„Ljóst er að hér er verður um umtalsverða viðbótarfjármuni að ræða en endanlegar fjárhæðir munu ekki liggja fyrir fyrr en búið er að meta fjárþörf skólanna, endanlegar aðsóknartölur og hversu mikið verður hægt að fjármagna úr varasjóðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins,“ segir í svari til fréttastofu frá ráðuneytinu.