Þrír féllu í átökum í Kasmír

22.06.2020 - 05:50
epa08499935 Indian army soldiers return from the site of a gunfight with separatist militants in Srinagar, the summer capital of the union territory of Jammu and Kashmir, 21 June 2020. Three militants were reportedly killed in the clash with government forces in the city's downtown area.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrír vígbúnir menn féllu í skotbardaga við indverska stjórnarhermenn í miðborg Srinagar í Kasmír í gær. AFP fréttastofan hefur eftir lögreglumanni að átökin hafi orðið í Zoonimar-hverfinu. Eitt heimili eyðilagðist í bardaganum. Aðeins tveir dagar eru síðan átta uppreisnarmenn féllu í skotbardaga við stjórnarhermenn.

Mikill órói hefur verið í Kasmír eftir að indversk stjórnvöld ákváðu að draga til baka sjálfsstjórn héraðsins í fyrrasumar. Þá var jafnframt skorið á allar samskiptalínur við héraðið, og hefur það ekki verið bætt að fullu síðan. Síðan útgöngubann var lagt á í Indlandi í mars vegna kórónuveirufaraldursins hafa Indverjar þjarmað að uppreisnarmönnum í Kasmír.

Erindreki Indverja var kallaður inn á fund pakistanska utanríkisráðuneytisins í gær. Þar var honum gerð grein fyrir hörðum mótmælum Pakistans á brotum á vopnahléssamningum í Kasmír á laugardag, þar sem táningur féll í átökum. Tveir almennir borgarar til viðbótar særðust. Pakistanar hafa gagnrýnt ákvörðun Indverja að draga sjálfsstjórn Kasmírs til baka, og átök hafa ítrekað orðið á milli landamæravarða í pakistanska og indverska hluta Kasmírs. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi