Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Þetta verður næsta stóra verkefnið“

22.06.2020 - 20:31
Mynd: Skjáskot / RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir hugsanlegt að mörg heimili geti ekki staðið skil á útgjöldum í haust. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna að undanförnu og uppsagnarfrestur margra verður liðinn að sumri loknu.

„Ég held að það sé alveg tilefni til að óttast ástandið. Hvað verður um möguleika fólks til framfærslu í haust? Við gætum verið að horfa upp á 8% atvinnuleysi, samkvæmt einhverjum spám,“ sagði Drífa í samtali við Boga Ágústsson í kvöldfréttum. Hún bætti við að mörg heimili og einstaklingar gætu verið í erfiðri stöðu í haust.

„Það gæti gerst að mörg heimili og einstaklingar verði í þeirri stöðu í að þeir geti ekki staðið skil á leigu eða húsnæðiskostnaði. [Húsnæðisöryggi] fólks er ógnað og þetta verður næsta stóra verkefnið,“ sagði Drífa. 

Kvennastéttir komnar að leiðarlokum

Bæði hjúkrunarfræðingar og flugfreyjur eru í kjaradeilum um þessar mundir. Enn er ósamið við stéttirnar tvær. Drífa segist ekki átta sig á því hvort það sé tilviljun að konur séu í meirihluta í báðum stéttunum. „Ég átta mig ekki alveg á því en ég held að kvennastéttir og konur almennt séu að valdeflast,“ sagði Drífa. Hún bætti hins vegar við að hún teldi að almennt séð væru kvennastéttir komnar að ákveðnum leiðarlokum og vísaði til verkfallsaðgerða Eflingar í því samhengi. Þar er stór hluti félagsmanna konur.

Drífa sagðist ekki tilbúin að fullyrða hvort lífskjarasamningnum verði sagt upp. Aðildarfélög ASÍ hittust í dag og formenn virðast sammála um að forsendur samningsins séu brostnar.

„Ég er ekki tilbúin til að gefa það út,“ sagði Drífa og bætti við að málið verði rætt í september. „Við vitum ekkert alveg hver staðan verður þá. Þannig að við verðum að gefa okkur félagslegt rými til þess að taka ákvörðun.“