Snæfellsnes og Flatey á Breiðafirði á fjórum dögum

Mynd með færslu
 Mynd: Skessuhorn - Flatey

Snæfellsnes og Flatey á Breiðafirði á fjórum dögum

22.06.2020 - 15:19
Í þessari viku förum við í ferð um Snæfellsnesið og tökum ferjuna yfir til Flateyjar. Það er margt skemmtilegt að skoða og gera á leiðinni: Rifja upp Bárðarsögu, skoða fossa og hafa það náðugt með fjölskyldu eða vinum.

RÚV núll tekur saman hugmyndir að nokkrum skemmtilegum ferðum í sumar fyrir fjölskyldur eða vini undir nafninu Pakkaferð RÚV núll. Í ferðinni sem hér er lýst er gert ráð fyrir fjórum dögum á fallegum stöðum. Að sjálfsögðu er hægt að hafa ferðina styttri eða lengri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hér er gert ráð fyrir að lagt sé af stað frá höfuðborgarsvæðinu en að sjálfsögðu er hægt að leggja í þetta ferðalag hvaðan sem er og nýta hugmyndirnar til að skapa hið fullkomna ferðalag.

Dagur 1 
Við leggjum snemma af stað og höldum í Borgarnes. Í dag keyrum við samtals 193 km, frá Reykjavík til Arnarstapa og skoðum skemmtilega staði á leiðinni og þar í kring. Frá Borgarnesi er 117 km akstur að Arnarstapa. Keyrt er í gegnum Eyja- og Miklaholtshrepp. Á Arnarstapa er hægt að fá sér góðan hádegisverð. Þar er margt skemmtilegt að skoða, til dæmis Gatklettur og þar er líka hægt að fræðast aðeins um Íslendingasögurnar en þar er minnisvarði um Bárð Snæfellsás sem flúði frá Noregi og settist að sunnan undir Snæfellsjökli. Gist er á Arnarstapa en dagurinn er nú bara rétt að byrja svo það er nú vel hægt er að keyra um nágrennið.

Hellnar eru ekki nema sjö mínútur frá. Þar er margt skemmtilegt að skoða og jafnvel hægt að stoppa á kaffihúsinu þar sem nefnist Fjöruhúsið. Á leiðinni væri hægt að skoða Bárðarlaug. Lóndrangar eru skammt undan en þar er mikið fuglalíf og hægt að skoða Malarrifsvita.

Það síðasta sem við skoðum í dag er Vatnshellir. Boðið er upp á leiðsögn um hellinn því það getur verið hættulegt að fara inn í hann ef maður þekkir ekki aðstæður. Deginum lýkur svo á Arnarstapa og kvöldið tekið rólega með fjölskyldu eða vinum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - Rúv
Arnarstapi

Dagur 2
Við leggjum í hann frá Arnarstapa. Í dag keyrum við 110 km og endum í Stykkishólmi. Keyrt er fram hjá þeim stöðum sem heimsóttir voru í gær og þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Hægt er að stoppa á leiðinni og ná einni mynd af Snæfellsjökli og virða hann fyrir sér. Ef þú ert heppin(n) gætir þú rekist á geimverur (samt sennilega ekki). Hugsa sér að þessi jökull gæti horfið af völdum loftslagsbreytinga ef fram heldur sem horfir. 

Áfram er brunað og stoppað við Djúpalónssand. Þar er þvílík náttúruperla og þú getur látið reyna á krafta þína með því að lyfta aflraunasteinunum sem liggja þar í sandinum. Steinarnir eru fjórir, hver öðrum þyngri. Sá stærsti heitir Fullsterkur og er 154 kg, næsti heitir Hálfsterkur og er hann 100 kg, sá þriðji heitir Hálfdrættingur og er 54 kíló og sá minnsti heitir Amlóði og er 23 kíló. Þegar það er orðið ljóst hver er sterkastur í hópnum er haldið áfram og næsta stopp er Hellissandur í 24,8 km akstursfjarlægð.

Á leiðinni er hægt að stoppa í Skarðsvík þar sem er gulur sandur og hægt að dýfa tám í sjóinn. Á Hellissandi er hægt að fá sér góðan hádegismat, kíkja í fjöruna og hoppa jafnvel á ærslabelgnum sem þar er staðsettur. Við höldum svo áfram og skoðum Svöðufoss og stoppum á Rifi og fáum okkur jafnvel einn kaffibolla í Frystiklefanum.

Næsta stopp er Ólafsvík. Þar er hægt að fara í sund og rölta um bæinn. Næst er það Stykkishólmur en frá Ólafsvík og þangað eru 64,2 km eða um 55 mínútna akstur. Á leiðinni er keyrt fram hjá Kirkjufellsfossi og í gegnum Grundarfjörð. Við Grundarfjörð er að finna fjallið stórfenglega Kirkjufell. Ef þú ert heppinn geturðu náð fallegu sólsetri í firðinum (eða eins miklu sólsetri og þú færð yfir sumartímann).

Það er gaman að vera í Stykkishólmi, kíkja í Eldfjallasafnið, rölta niður á höfn, borða góðan mat og jafnvel fara í siglingar sem fara úr höfninni. Þarna er gott tjaldsvæði og önnur gisting að sjálfsögðu líka í boði.

Dagur 3
Í dag er farið með ferjunni Baldri út í Flatey. Það gæti þurft að vakna snemma því ferjan fer kl. 9 á laugardögum. Alla aðra daga fer hún klukkan 15. Flatey er þéttbýlasta eyjan á Breiðafirði, er mikil náttúruperla og þar er mikið fuglalíf en hluti hennar er friðaður. Gaman er að rölta um eyjuna, hoppa í sjóinn, tjalda og jafnvel grilla sykurpúða.

Mynd með færslu
 Mynd: Flatey - Google
Flatey á Breiðarfirði

Dagur 4
Í dag njótum við þess að vera í fríi á þessari fallegu eyju. Ferjan fer ekki til baka fyrr en kl. 19 svo það er ekkert stress. Frá Stykkishólmi og í bæinn eru svo 172 km eða um tveir klukkutímar og tuttugu mínútur af keyrslu.

Mynd með færslu
 Mynd: Stykkishólmur
Stykkishólmur

RÚV núll setur fram tillögur að skemmtilegum ferðalögum til að fara í sumar.

Tengdar fréttir

Í návist jökla, fossa og heitra lauga á fjórum dögum

Fimm daga ferð um Vestfirði og ótrúleg náttúrufegurð