Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skjálfti upp á 4 á sama svæði og sá stóri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn er mikil skjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu. Allstór skjálfti sem var fjórir að stærð mældist í hádeginu, klukkan 12.18. Sá var á sama svæði og stóri skjálftinn sem reið yfir um sjöleytið í gærkvöldið, eða um þrjátíu kílómetra norður af Siglufirði og 35 kílómetra vestur af Grímsey.

Sá reyndist vera 5,8 að stærð og er sá kröftugasti í skjálftahrinunni hingað til.

Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir sérfræðinga náttúruvársviðs ekki hafa undan að fara yfir mælingarnar. „Við reynum að taka stærstu skjálftana,“ segir hún. Auka mannskap þyrfti til að fara yfir skjálftahrinuna í heild. 

Síðustu tvo sólarhringa hafa hátt í 2.000 jarðskjálftar mælst á Tjörnesbrotabeltinu. Samkvæmt óstaðfestum tölum Veðurstofunnar hafa tæplega 600 þeirra  verið milli 2 og 3 að stærð og 120 hafa verið yfir 3 að stærð.

Hulda segir enn vera að koma inn smáskjálfta. Þegar horft sé til þróunarinnar frá því í gærkvöldi sé þó ekki sami fjöldi af stórum skjálftum að koma inn. „Við vonum að það sé að draga úr þessu,“ segir hún. „Það kemur í ljós næstu daga hvernig þróunin verður.“

Nokkuð hefur verið um skriður á svæðinu norðaustur af Siglufirði og biðlar Veðurstofan og Almannavarnir til ferðafólks á svæðinu að nota almenna skynsemi, velja öruggar leiðir og forðast að vera undir brekkum sem eru þekktar skriðuhlíðar.