Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir furðulegt að taka mark á óvísindalegum könnunum

22.06.2020 - 21:41
Prófessor í stjórnmálafræði segir að ekki sé hægt að taka mark á niðurstöðum úr óvísindalegum könnunum í aðdraganda forsetakosninga á laugardag. Rætt var um hlutverk forsetans í Kastljósi í kvöld.

„Sitjandi forseti hefur töluvert pólitískt svigrúm innan marka stjórnarskrárinnar, til þess að breyta ákveðnum hlutum. En það þýðir auðvitað ekki að forsetinn geti brotið stjórnarskrána, eða farið beinlínis í bága við ákvæði hennar. Ef menn framkvæmdu ýmislegt af þeim hugmyndum sem að Guðmundur Franklín hefur sett fram, þá værum við í raun að færa okkur miklu meira í áttina að pólitískum forseta og ég geri ráð fyrir að ef að það ætti að geta fúnkerað, þá yrðu fyrst að koma til stjórnarskrárbreytingar, annað væri í það minnsta mjög snúið,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Ekki hægt að lækka laun forseta

Guðmundur Franklín Jónsson hefur meðal annars sagt að hans fyrsta verk í embætti yrði að lækka laun forseta um helming. 

„Það er reyndar óheimilt samkvæmt stjórnarskránni að lækka laun forseta á sjálfu kjörtímabilinu þar sem að hann situr. Þannig að samkvæmt stjórnarskránni er þetta alls ekki hægt, það er ekki hægt að samþykkja lög sem myndu lækka laun forseta,“ sagði Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði.

Nýjasta skoðanakönnun Zenter rannsókna bendir til þess að Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, sé með yfir níutíu prósent fylgi en Guðmundur Franklín tæplega tíu prósent. Ólafur segir það gefa ákveðin fyrirheit.

„Svo eru náttúrulega aðrar kannanir sem eru gjörsamlega óvísindalegar, sem gefa öðruvísi niðurstöður, og sumir virðast taka mark á þeim,“ sagði Ólafur og vísaði meðal annars til netkannana sem gáfu mjög skakka mynd af forsetakosningunum fyrir fjórum árum.

„Svona niðurstöður fást þegar sjálfvalin úrtök eru notuð og í rauninni furðulegt að einhverjir skuli taka mark á þessu.“

Sjá má Kastljós kvöldsins í heild sinni hér efst í spilaranum.