Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öðruvísi en að setja allan samninginn í gerðardóm

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Verkfalli hjúkrunarfræðinga sem átti að hefjast í morgun var afstýrt í gærkvöld með miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilunni. Í miðlunartillögunni felst að hluti launaliðarins fari í gerðardóm. Ríkissáttasemjari segir virði í því að samkomulag hafi náðst um önnur atriði og aðeins launaliðurinn fari fyrir gerðardóm. Fái miðlunartillagan ekki brautargengi þyngist deilan enn frekar.

Ríkissáttasemjari telur að ágreiningurinn milli deiluaðila verði ekki leystur við samningaborðið og því lagði hann fram miðlunartillögu. Miðlunartillagan inniheldur öll atriði sem náðst hefur sátt um við samningaborðið en að afmarkaður hluti launaliðarins verði sendur í gerðardóm. 

Gerðardómur var settur á síðasta kjarasamning hjúkrunarfræðinga árið 2015.  „Þetta er talsvert öðruvísi en að setja allan kjarasamninginn í gerðardóm. Samningsaðilar höfðu náð niðurstöðu um hjartnær öll atriði hans það var bara þetta eina vel skilgreinda atriði sem stóð út af borðinu. Þess vegna tel ég að það sé talsverð virði í því að samkomulag náist um þau atriði og bara þetta eina atriði fari í gerðardóm,“ segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari.

Hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning við ríkið í lok apríl og vilja hærri grunnlaun. Ríkið hefur sagt að kröfur hjúkrunarfræðinga sprengi lífskjarasamninginn.

Voru allir samningsaðilar sáttir við þessa niðurstöðu? „Við skulum orða það þannig að ríkissáttasemjari leggur ekki fram miðlunartillögu í ósátt við samninganefndirnar,“ segir hann.

Miðlunartillagan verður kynnt hjúkrunarfræðingum á fundum á Grand hótel seinnipartinn í dag og á morgun, félagsmenn greiða atkvæði um hana seinna í vikunni. „Ef svo fer að miðlunartillagan fær ekki brautargengi þá erum við stödd aftur í þeim sporum að ég kalla samningsaðila að samningaborðinu en þá hlýtur deilan að þyngjast enn frekar,“ segir Aðalsteinn jafnframt.