Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mjög sérstakt að launamál fari aftur fyrir gerðardóm

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Ég er sátt. Ef ég horfi til baka yfir þetta fimmtán mánaða ferli má í rauninni segja að við séum búin að ná mjög stórum hluta af því sem við vorum að berjast fyrir. Fyrir utan auðvitað launaliðinn,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í deilu félagsins við ríkið í gærkvöldi.

Viss sigur að ekkert skuli hafa verið gefið eftir

Með miðlunartillögunni var verkfalli hjúkrunarfræðinga, sem átti að hefjast í morgun, afstýrt. Samkvæmt henni verður hluti samningsins og helsta ágreiningsefnið, launaliðurinn, settur í gerðardóm. Síðasti kjarasamningur hjúkrunarfræðinga, árið 2015, fór líka fyrir gerðardóm. „Þetta þarf virkilega að skoða. Hvernig stendur á því að hjúkrunarfræðingar fái ekki í rauninni af því sem við teljum ásættanleg laun miðað við ábyrgð og menntun. Það er klárlega eitthvað að í kerfinu fyrst niðurstaðan er svona. Við erum með raunhæfar kröfur og að sjá fram á að launmál hjúkrunarfræðinga séu í annað skiptið að fara fyrir gerðardóm er mjög sérstakt.“

„Auðvitað er ég hugsi yfir því að við skulum þurfa aftur að starfa eftir niðurstöðum gerðardóms. Vonandi sjá félagsmenn líka að þetta er viss sigur. Það að við skyldum ekki bakka tommu og  gefa eftir neitt um launaliðinn segir meira en margt annað í mínum huga,“ segir Guðbjörg.

Hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning við ríkið í lok apríl og vilja hærri grunnlaun. Ríkið hefur sagt að kröfur hjúkrunarfræðinga sprengi lífskjarasamninginn. 

Er þetta vanvirðing af hálfu samninganefndar ríkisins? „Ég held að samninganefnd ríkisins hafi gert allt sem að hún hafði möguleika á að gera miðað við stöðuna. Þau úrræði sem samninganefnd ríkisins hafði á móti okkar kröfum gerir það að verkum að ágreiningurinn varð of djúpstæður til að við næðum saman. Hver svo sem ástæðan fyrir því er.“

Bjartsýn á að miðlunartillagan verði samþykkt

Miðlunartillagan verður kynnt hjúkrunarfræðingum á fundum á Grand hóteli í Reykjavík seinni partinn í dag og á morgun, félagsmenn greiða atkvæði um hana seinna í vikunni.

Ertu bjartsýn á að þínir félagsmenn samþykki þessa miðlunartillögu? „Já, ég er það af því við horfum á heildina. Það má ekki gleyma því að það er margt annað mjög gott í þessari miðlunartillögu sem þegar var búið að ná fram og var búið að nást fram á undanförnum vikum.“

Guðbjörg telur að þrátt fyrir að ekki hafi komið til verkfallsins sem átti að ná til 2.600 hjúkrunarfræðinga um allt land, hafi það verið farið að hafa áhrif. „Að vissu leyti var verkfallið farið að bíta vel fyrirfram síðustu sólarhringa. Það er alveg ljóst að þetta hefði farið mjög illa með heilbrigðiskerfið og getað sett það mjög fljótlega á hliðina.“