„Kom mér óvart upp akademíu í bakgarðinum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Kom mér óvart upp akademíu í bakgarðinum“

22.06.2020 - 15:26

Höfundar

Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur breytti smáhýsum í bakgarðinum hjá sér, sem hún hefur leigt út til ferðamanna, í athvarf fyrir aðra rithöfunda.

Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur býr í Hveragerði ásamt fjölskyldu sinni. Í bakgarðinum eru tvö smáhýsi sem þau hjónin hafa leigt út til ferðamanna. Þegar útséð varð með ferðamannastrauminn vegna COVID-19 ákvað Guðrún Eva að bjóða öðrum rithöfundum í vinnustofudvöl. 

„Ég er eiginlega bara búin að koma mér upp óvart akademíu í bakgarðinum. Ég vissi ekki að þetta yrði svona vinsælt, við erum eiginlega búin að fylla sumarið. Ég setti inn litla tilkynningu á Facebook um að fólk gæti komið hérna og verið í þrjá daga eða lengur og skrifað og svo væri innifalin klukkutíma ráðgjöf á dag á mann. Þetta sló í gegn, ég náði aldrei að byrja að auglýsa þetta það er bara greinilega svo mikil þörf fyrir þetta.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikið hefur verið skrafað og ort í bakgarðinum

Hún segir bæði margútgefna höfunda og nýgræðinga á ritvellinum koma í garðinn. „Ég er búin að vera að tala við ótrúlega marga sem hafa aldrei fengið þessa tegund af samtali og eru jafnvel að leyfa einhverjum í fyrsta sinn að lesa eitthvað sem þeir hafa skrifað. Og það er ótrúlega fallegt og dýrmætt.“  

Aðspurð segist hún enn vera að reyna að átta sig á hugsanlegum áhrifum heimsfaraldurs á eigin ritstörf.  „Það sem ég finn mest fyrir í mínum ritstörfum er að ég veit ekki enn þá alveg inn í hvaða heim ég er að skrifa. Mér finnst eitthvað skrítið að skrifa inn í gamla heiminn, mig langar ekki að skrifa um pláguna og ég veit ekki enn þá hvernig heimurinn er orðinn. Það á eftir að koma í ljós. Hann er dálítið að fæðast.“

Menningin heimsótti Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Horfa má innslagið hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Portrett af skáldkonu

Bókmenntir

Skilaði bílprófinu og tekur strætó úr skáldabænum