Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Jón Þór formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur verið kjörinn formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, flokkssystir Jóns, sagði af sér formennsku í nefndinni í síðustu viku. Ástæðan fyrir afsögn hennar er sú að hún taldi meirihluta nefndarinnar sýna af sér valdníðslu.

Píratar lögðu til að Jón Þór tæki við formennsku af Þórhildi Sunnu en sam­kvæmt samn­ing­um sem gerðir voru í upp­hafi þings fer þing­flokk­ur Pírata með for­mennsku í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Jón Þór hefur setið atvinnuveganefnd frá því í haust og mun Þórhildur Sunna taka við sæti hans þar.

Fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hófst klukkan 9:10 í morgun. Andrés Ingi Jónsson og Guðmundur Andri Thorsson greiddu atkvæði með Jóni Þóri, auk hans sjálfs, en Þorsteinn Sæmundsson greiddi atkvæði gegn honum. Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir sátu hjá. 

Tveir nefndarmenn, þeir Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, voru fjarverandi og tóku því ekki þátt í kjörinu. Brynjar hafði lýst því yfir að hann styddi Jón Þór ekki sem formann. 

Rígur hefur verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að undanförnu en Jón Þór segir í samtali við fréttastofu að hann sé vongóður um að nefndin verði starfhæf eftir kjörið.

„Nú skulum við bara sjá til og vona að nefndin verði starfhæf. Vonandi dugir þetta til þess að fólk vakni og kveiki á því að um þessa nefnd voru sett lög sem hafa ákveðin markmið,“ segir Jón Þór. Hann bendir á að megintilgangur nefndarinnar sé að hafa eftirlit með ráðherrum sérstaklega og að þetta komi skýrt fram í frumvarpi laganna og greinargerð með þeim. 

„Mín helsta áhersla [sem formaður] verður að passa upp á að hlutverk nefndarinnar sé virkt,“ segir Jón Þór.

Leiðrétt kl. 13:22

Í upphaflegri gerð þessarar fréttar láðist að nefna að Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi setið hjá í atkvæðagreiðslunni. Þetta hefur nú verið lagfært.