Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Full ástæða til að fara varlega

22.06.2020 - 19:22
Mynd: Skjáskot / RÚV
Enn er hætta á hruni á Norðurlandi ef fleiri stórir jarðskjálftar verða þar, segir Sveinn Brynjólfsson, sérfræðingur á sviði ofanflóðahættumats hjá Veðurstofunni. Hann flaug yfir skjálftasvæðin í gær til að meta aðstæður. Sveinn segir að ekki hafi sést sérstök hættumerki en enn verði fólk að hafa varann á sér vegna hugsanlegra skjálfta. „Það er full ástæða til að vera ekki í bröttum brekkum, undir klettum og í skriðum þar sem grjóthrun getur orðið.“

Um 4.500 jarðskjálftar hafa mælst á Norðurlandi frá því á föstudag. Í dag eru skjálftarnir orðnir um 1.200 talsins.

„Hann var vissulega svolítið harkalegur skjálftinn um kvöldmatarleytið í gær, og langur, og í svona góðan klukkutíma eftir það voru minni skjálftar, bæði snarpir og meira flæðandi, og það var svona pínu sjóriðufílingur við matarborðið,“ segir Sandra Finnsdóttir. „En ennþá er ég bara slök, þetta er ekkert þægilegt, en bara Ísland.“

„Já, eðlilega er fólki brugðið, en á sama tíma finnst mér allir sýna stillingu og vera tiltölulega rólegir yfir þessu, en eðlilega er fólki brugðið meðan á þessu stendur,“ segir Elías Pétursson.

Harpa Hlín Jónsdóttir er í forsvari ferðafélagsins Trölla. „Já, við ferðafélagið Trölli höfum þurft að aflýsa ferð sem átti að vera á morgun, upp af plani á Gamla-Múla, sem hafa verið mjög vinsælar ferðir og margir verið í hóp, en þar sem er óvissustig almannavarna þá verðum við bara að hlýða því og fresta þeirri göngu.“