Framkvæmdir við veg um Teigsskóg verða ekki stöðvaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði fyrr í mánuðinum kröfu Landverndar um að framkvæmdir við nýjan Vestfjarðaveg um Teigsskóg í Gufudalssveit yrðu stöðvaðar. Vegagerðin hefur endurskipulagt framkvæmdaferlið og vill byrja á þeim köflum sem minnstur ágreiningur er um.

Náttúruverndarsamtökin fóru fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til skorið yrði úr tveimur kærum á hendur Reykhólahreppi vegna framkvæmdaleyfis Vegagerðarinnar fyrir nýjan Vestfjarðaveg. Kærurnar eru annars vegar frá Landvernd og hins vegar landeigendum að Hallsteinsnesi og Gröf, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Fuglaverndarfélagi Íslands. Deilt er um veginn vegna umhverfisáhrifa fyrirhugaðrar veglínu.

Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri framkvæmdarinnar hjá Vegagerðinni, segir að framkvæmdaferlið hafi verið endurskipulagt fyrr á árinu þegar kærurnar bárust. Þá voru umdeildir vegarkaflar setti aftar í áætlunina. Þetta hafi verið gert ef ske kynni að skorið yrði úr kærunum framkvæmdinni í óhag. Byrjað verði á vegi inn Gufufjörð.

„Það er vegur sem verður heim að bæjardyrum með bundnu slitlagi. Við ákváðum að taka hann fremst þar sem hann er ekki, að við teljum, ágreiningsmál. Sú vegagerð, eða endurbygging á þeim vegi,“ segir Sigurþór.

Hann segir stefnt á að kaflinn inn Gufufjörð verði boðinn út um mánaðamótin og að framkvæmdir hefjist í ágúst. Enn á Vegagerðin eftir að semja við landeigendur í Þorskafirði og Djúpafirði, sem eru aftar í áætlun.

„Ég er nú bjartsýnn á Þorskafjörðinn, að við náum saman þar. En það er ekki í hendi eins og sagt er.“

Sigurþór segir að það hefi tekið lengri tíma að semja við landeigendur en búist var við. Jafnframt segir hann að ef samningar náist ekki fari Vegagerðin fram á eignarnám.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi