Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Frakkar hafa sótt á þriðja tug barna til Sýrlands

22.06.2020 - 09:29
epa07393469 A woman identified as Dutch national Ilham Burgani, reportedly a wife of a suspected Islamic State (IS) fighter, carries her child at Roj refugees camp in Hasakah, northeast of Syria, 24 February 2019. The camp which is controlled by the US-backed Syrian Democratic Forces (SDF) houses over 300 families, most of them are wives and children of Islamic state (IS) fighters among them foreigners who arrived in the camp following the defeat of Islamic State group in its last strongholds in eastern Syria.  EPA-EFE/MURTAJA LATEEF
 Mynd: EPA
Frönsk stjórnvöld fluttu á dögunum heim til Frakklands tíu börn franskra ríkisborgara sem börðust með hryðjuverkasamtökunum sem kenndu sig við íslamskt ríki í Sýrlandi. Alls er því búið að sækja 28 frönsk í flóttamannabúðir í Sýrlandi síðustu misseri.

Franska utanríkisráðuneytið segir í tilkynningu að börnin fái nú læknishjálp og séu í umsjá félagsmálayfirvalda. Ekkert hefur verið gefið upp um foreldra barnanna.

Hundruð franskra ríkisborgara fóru til Sýrlands gagngert til að berjast með vígamönnum íslamska ríkisins. Mannréttindasamtök hafa hvatt ríkisstjórnir til að flytja heim að minnsta kosti þau börn sem eru undir lögaldri, komu með foreldrum sínum á átakasvæðið eða fæddust í Sýrlandi.

Talið er að um þrjú hundruð frönsk börn séu í flóttamannabúðum sem Kúrdar reka í Sýrlandi ásamt foreldrum sínum. Frönsk stjórnvöld hafa ítrekað að franskir ríkisborgarar þurfi að taka út sinn dóm í Sýrlandi. Þetta viðhorf hefur verið gagnrýnt og sagt geta aukið hættu á ómannúðlegri meðferð fjölskyldna franskra vígamanna.