Dæmdur vegna hópslagsmála í sumarbústaðabyggð

22.06.2020 - 21:10
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Héraðsdómur Austurlands sakfelldi karlmann í síðustu viku fyrir hans þátt í hópslagsmálum í sumarhúsabyggð, sem varð til þess að allt tiltækt lögreglulið á Egilsstöðum var kallað út. Maðurinn var sakfelldur fyrir líkamsárás og brot á lögreglulögum. Fyrir vikið fékk hann 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm og var dæmdur til að greiða 203 þúsund krónur í málskostnað.

Lögreglan á Egilsstöðum var með sérstakan viðbúnað vegna menntaskólaballs aðfaranótt 8. desember. Ballið fór fram með friðsamlegasta hætti en nóttin varð róstusöm af öðrum og ótengdum orsökum. Þegar leið á nóttina var tilkynnt um hópslagsmál í sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum. Fjórir lögreglumenn á vakt fóru strax á vettvang og kom þá í ljós að tuttugu til þrjátíu manns voru í þvögu, og nokkrir í slagsmálum. Var þá þegar kallað á þrjá lögreglumenn á bakvakt til aðstoðar.

Einn mannanna var ákærður fyrir að ýta harkalega við einum lögreglumanni og toga í annan, auk þess að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar og berja mann í andlitið þar sem þeir sátu í framsætum bíls við sumarbústað.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi