Aldrei fleiri kórónaveirusmit á einum sólarhring

22.06.2020 - 10:28
epa08501070 Demonstrators protest against the Brazilian President, in Sao Paulo, Brazil, 21 June 2020.  EPA-EFE/Sebastiao Moreira
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Metfjöldi greindist með kórónuveirusmit í heiminum síðastliðinn sólarhring að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, yfir 183 þúsund. Flestir voru greindir í Brasilíu, rúmlega fimmtíu þúsund.

Þar á eftir fylgdu Bandaríkin og Indland. Að sögn stofnunarinnar skýrir það þennan fjölda að mun meira er skimað fyrir veirunni um þessar mundir en fyrir nokkrum vikum.

Sérfræðingar telja að enn eigi nokkrar vikur eftir að líða áður en COVID-19 farsóttin nær hámarki í Brasilíu. Þar hefur hún orðið yfir fimmtíu þúsund manns að bana.

Gagnrýni á aðgerðaleysi Jairs Bolsonaros forseta Brasilíu eykst stöðugt. Hann aftekur sem fyrr að fyrirskipa útgöngubann til að hefta útbreiðslu veirunnar. Hjólum atvinnulífsins verði að halda gangandi til að vernda efnahaginn. Tveir heilbrigðisráðherrar hafa látið af störfum frá því að farsóttin braust út í Brasilíu. Annan rak Bolsonaro, hinn hætti vegna ágreinings við forsetann.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi