Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

93% aukning á fyrirspurnum til forsætisráðuneytis

22.06.2020 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Fjöldi þingfyrirspurna sem bárust forsætisráðuneytinu voru 14 árið 2015 en á síðasta ári voru þær 27. Þetta jafngildir um 93% aukningu. Það sem af er ári eru fyrirspurnir til forsætisráðuneytisins tólf talsins.

Þessar upplýsingar koma fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum. 

Fyrirspurn Brynjars var á þessa leið:

  1. Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
  2. Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
  3. Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?

Í svarinu kemur fram að ráðuneytið haldi ekki sérstaklega utan um fjölda vinnustunda starfsmanna við undirbúning skriflegra svara við fyrirspurnum þingmanna. Sömuleiðis væri ráðuneytinu ómögulegt að áætla fjölda þeirra aftur í tímann. 

Mynd með færslu
Brynjar Níelsson spurði um þingfyrirspurnir.

„Svör við fyrirspurnum krefjast mismikillar vinnu eftir efni þeirra og umfangi og getur samanlagður vinnustundafjöldi vegna einstakra fyrirspurna numið allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkurra daga vinnu. Í flestum tilvikum kemur fleiri en einn starfsmaður að undirbúningi svars og oft þarf að kalla eftir upplýsingum frá stofnunum ráðuneytisins,“ segir í svarinu. 

Þar segir einnig að leiða megi að því líkur að sífellt fleiri vinnustundir fari í undirbúning svara samhliða aukningu fyrirspurna.

31 prósent af heildarfjölda fyrirspurna til forsætisráðuneytisins frá Pírötum

Píratar lögðu fram fleiri fyrirspurnir á tímabilinu 2015 til 2020 en nokkur annar þingflokkur. Hlutfall fyrirspurna frá flokknum var um 31 prósent af heildarfjöldanum. Næstir í röðinni voru Vinstri græn með 17,3 prósent af heildarfjölda fyrirspurna til ráðuneytisins. 

Athygli vekur að Miðflokkurinn lagði fram 13 prósent allra fyrirspurna á tímabilinu, þrátt fyrir að hafa aðeins verið á þingi frá því í lok 2017. Til samanburðar má nefna að Viðreisn, sem á sér jafnlanga sögu á þingi, lagði fram 0,1 prósent þingfyrirspurna til ráðuneytisins. 

Flestar fyrirspurnir Pírata frá Birni Leví

Björn Leví Gunnarsson lagði fram 26 af 34 fyrirspurnum sem komu frá Pírötum á tímabilinu 2015 til 2020. 

Hann hefur farið mikinn í þingfyrirspurnum að undanförnu en hann lagði alls fram 108 fyrirspurnir um lögbundið hlutverk og fjármögnun verkefna hjá ýmsum ríkisstofnunum í maí og júní. 

Björn Leví fór upphaflega þá leið að beina einni fyrirspurn til hvers ráðuneytis um lögbundin verkefni undirstofnana þeirra. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, neitaði hins vegar að skrifa upp á fyrirspurnirnar vegna þess að hann taldi að erfitt væri að svara þeim í stuttu máli. Björn fór því þá leið að leggja fram eina fyrirspurn fyrir hverja ríkisstofnun. Hluti þessara fyrirspurna barst forsætisráðuneytinu. 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV