57 starfsmenn SÁÁ vilja Þórarin ekki aftur

22.06.2020 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir
Engin þörf er á að bjarga starfsfólki SÁÁ eins og Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi formaður samtakanna hefur haldið fram. Þetta kemur fram í yfirlýsingu 57 starfsmanna meðferðarsviðs SÁÁ sem segjast hins vegar ekki vilja fá Þórarin aftur í stöðu formanns samtakanna. 

Í yfirlýsingunni, sem send var til fjölmiðla í morgun, segir að starfsandinn á meðferðarsviðinu sé almennt góður. Að Þórarinn haldi öðru fram sé hins vegar „dæmigert fyrir hans stjórnunarstíl, viðhorf og sjónarmið“. 

Aðalfundur SÁÁ verður haldinn 30. júní og hafa Þórarinn Tyrfingsson og Einar Hermannsson lýst því yfir að þeir sækist eftir formannskjöri. Í yfirlýsingunni segjast starfsmennirnir treysta Einari fyrir formennskunni.  

Undanfarið hafi fjölmiðlar fjallað um fjárhagsvanda og óróleika í SÁÁ. Segja starfsmennirnir að þetta sé ekki rétt og vandinn snúist ekki um peninga. 

„Vandi SÁÁ snýst um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum,“ segir í yfirlýsingunni. 

Óróleikinn sem Þórarinn haldi fram að þar ríki sé að miklu leyti af hans völdum. Er Þórarinn sagður hafa „unnið ötullega að því að reyna skapa úlfúð og missætti milli starfsstétta.“ Þannig sé handbragð hans auðþekkjanlegt á öllum gjörðum framkvæmdarstjórnar sem leiddu til vantraustsyfirlýsingar starfsfólks á formanni og framkvæmdastjórn SÁÁ í apríl. 

Meðferðarvinnan hafi aldrei gengið eins vel og eftir að Valgerður Rúnarsdóttur tók við starfi forstjóra sjúkrahússins Vogs af Þórarni og miklar jákvæðar breytingar hafi orðið innan starfsmannahópsins með breyttum stjórnunarháttum. 

Þannig hafi starfsmannavelta minnkað umtalsvert, tækifæri gefist til þróunar í starfi, starfsánægja og valdefling starfsstétta hafi aukist og breytt stöðu starfsmanna. Þessar breytingar séu að miklu leyti afleiðing þeirra stjórnunarhátta sem voru teknir upp eftir að Valgerður tók við af Þórarni. Þess vegna vilji starfsfólk ekki fá Þórarin aftur. 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi