Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 1.100 skjálftar mælst síðustu tvo sólarhringa

21.06.2020 - 03:06
DCIM\100MEDIA\DJI_0512.JPG
 Mynd: Aðsend mynd:Ingvar Erlingsson - RÚV
Skjálftahrinan norðaustur af Siglufirði heldur áfram af fullum krafti. Laust fyrir klukkan þrjú í nótt fannst jarðskjálfti á Siglufirði, sem samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands mældist 4,3 að stærð. Undanfarna tvo sólarhringa hafa mælst yfir 1.100 skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu við Norðurland, 65 þeirra hafa mælst yfir 3 að stærð. Stærsti skjálftinn sem orðið hefur í þessari hrinu mældist 5,6. Hann fannst allt vestur til Ísafjarðar og á höfuðborgarsvæðinu.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir fulla ástæðu til að gera sérstakar ráðstafanir vegna skjálftanna. „Það eru talsverðar líkur að því að þessi hrina haldi áfram. Þetta er öflug hrina og það var önnur hrina 2012 nokkuð svipuð og þessi. Þá urðu sex skjálftar stærri en fimm,“ segir Kristín í samtali við fréttastofu. Hún segir að skjálftarnir geti einnig orðið mun stærri, allt að sjö.