Um 2000 skjálftar mælst síðan hrinan hófst

21.06.2020 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Í kringum 2000 jarðskjálftar hafa mælst á Tjörnesbrotabeltinu á Norðurlandi síðan skjálftahrinan hófst eftir hádegi á föstudag. Þetta segir Sigríður Magnea Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Skjálfti laust fyrir klukkan þrjú í nótt

Áframhaldandi skjálftavirkni er á svæðinu norðaustur af Siglufirði, og íbúar gætu hafa vaknað við jarðskjálfta laust fyrir klukkan þrjú í nótt. Skjálftinn var yfir fjórum að stærð og Veðurstofu bárust tilkynningar um að hann hafi fundist á Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði og við austanverðan Eyjafjörð. Í kjölfarið komu tveir eftirskjálftar yfir þremur að stærð.

Veðurstofan hvetur fólk á svæðinu til að hafa varann á. Ef annar stór skjálfti verður má búast við grjóthruni víða. 

Líkur á að hrinan haldi áfram

Tveir stærstu skjálftarnir mældust í eftirmiðdaginn í gær og í gærkvöld, 5,4 og 5,6 að stærð. Þeir fundust um allt Norðurland og alla leið suður í Borgarfjörð. 

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Fréttastofu í gær að talsverðar líkur væru á því að skjálftahrinan héldi áfram. Sambærileg hrina hefði orðið árið 2012 og þá hefðu orðið sex skjálftar yfir fimm að stærð.  

Fréttstofa óskar eftir myndum og myndskeiðum tengdum jarðskjálftunum. Lesendur eru beðnir um að senda myndefni á [email protected]

Uppfært 11:55:
Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni við eftirskjálfti á svæðinu klukkan 11:25, fjórir að stærð.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi