Trump segir sýnatöku tvíeggjað sverð

epa08499462 US President Donald J. Trump speaks during a rally inside the Bank of Oklahoma Center in Tulsa, Oklahoma, USA, 20 June 2020. The campaign rally is the first since the COVID-19 pandemic locked most of the country down in March 2020.  EPA-EFE/ALBERT HALIM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt sinn fyrsta fjöldafund í rúma þrjá mánuði fyrir hálf-fullum sal í Tulsa í Oklahoma í gærkvöld. Forsetinn lá undir talsverðu ámæli fyrir að halda slíkan fund á meðan bráðsmitandi kórónuveira breiðist enn hratt út í Bandaríkjunum, þar á meðal í Oklahoma. Hann lét það ekki á sig fá, og hrósaði sjálfum sér og stjórn sinni á fundinum fyrir það starf sem hún hefur unnið við að ná tökum á faraldrinum.

Yfir 2,3 milljónir Bandaríkjamanna hafa nú greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum og nærri 122 þúsund eru látnir af völdum sjúkdómsins. Eins bárust fregnir af því í gær að sex manns úr starfsliði kosningabaráttu forsetans til endurkjörs sem unnu að því að gera allt klárt fyrir ræðuhöldin hafi greinst jákvæðir við COVID-19 í gær. Trump sagðist á fundinum hafa komið þeim skilaboðum áleiðis til viðbragðsaðila að hægja á skimun. Í hans huga væri fjöldi jákvæðra sýna í Bandaríkjunum aðallega vegna þess hversu mörg sýni hafa verið tekin. Sýnataka sé þannig tvíeggjað sverð. Ef hægt yrði á sýnatöku, myndi tilfellum að líkindum fækka. Kosningateymi Trumps kvað hann hafa verið að grínast.

Brad Parscale, kosningastjóri forsetans, fór mikinn á samfélagsmiðlum í vikunni og greindi frá miklum áhuga á fundinum. Hann greindi frá því að um milljón manns hafi sótt um miða á viðburðinn.

Salurinn tekur 19 þúsund manns, og var því búið að koma fyrir sviði fyrir utan svo fleiri gætu barið forsetann augum. Þegar nær dró og ljóst var að fjöldinn dygði ekki einu sinni til þess að fylla í hvert sæti í salnum, var byrjað að taka niður útisviðið áður en ræða Trumps hófst. Parscale kenndi róttækum mótmælendum og fjölmiðlaumfjöllun undanfarinnar viku um að fleiri hafi ekki mætt á staðinn.

 

Að sögn þingkonunnar Alexandria Ocasio-Cortez, og fleiri, voru það hins vegar táningar á samfélagsmiðlum sem ýktu þann fjölda sem sóttist eftir miðum á viðburðinn, og því hafi fjöldinn ekki verið meiri.

Trump var ánægður með þá sem mættu og kallaði stuðningsmenn sína sanna stríðsmenn. Hann sagði hinn þögla meirihluta sterkari en nokkru sinni fyrr og eftir fimm mánuði muni Joe Biden verða sigraður. Ræðan var nokkuð svipuð fyrri ræðum forsetans, en bætti þó við sínum þönkum um atburði líðandi stundar. Þannig sagði hann óheflaðan múginn af vinstri vængnum reyna að rústa sögu Bandaríkjanna, vanhelga glæsileg minnismerki, rífa niður styttur, og refsa hverjum þeim sem gengst ekki við kröfum þeirra um algjöra stjórn. Átti hann þar við mótmælendur sem hafa undanfarnar vikur krafist endaloka kerfisbundins rasisma í Bandaríkjunum og ofbeldi lögreglu í garð svartra Bandaríkjamanna.

Erfiðar vikur

Síðustu vikur hafa verið Bandaríkjunum og stjórn Trumps erfiðar. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við kórónuveirufaraldrinum,  ný bók fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa hans fer ófögrum orðum um hann og síðustu vikur hafa verið róstursamar í bandarískum borgum. Þá hafa skoðanakannanir fyrir forsetakosningarnar í nóvember ekki verið Trump í hag, hvorki á landsvísu né í þeim ríkjum sem sveiflast á milli Repúblikana og Demókrata. Oklahoma er ekki eitt slíkra ríkja. Þar kýs meirihlutinn iðulega Repúblikana. Fundurinn var því ekki endilega til þess að afla sér frekara fylgis meðal kjósenda, heldur til þess að koma kosningaherferð forsetans aftur af stað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi