Sofia Sóley og Birkir Íslandsmeistarar í tennis

Mynd: Valur Páll Eiríksson / RÚV

Sofia Sóley og Birkir Íslandsmeistarar í tennis

21.06.2020 - 16:15
Íslandsmótinu í tennis utanhúss lauk á Víkingsvelli í Fossvogi í dag. Sofia Sóley Jónasdóttir og Birkir Gunnarsson stóðu uppi sem sigurvegarar.

Sofia Sóley lagði ríkjandi Íslandsmeistara Önnu Soffíu Grönholm í undanúrslitum á fimmtudag. Hún mætti Heru Björk Arnþórsdóttur í dag en hún hafði lagt Evu Diljá Arnþórsdóttur í undanúrslitunum.

Aðstæður voru erfiðar í Víkinni í dag þrátt fyrir sól og hlýtt veður en mikill vindur hafði sitt að segja. Sofia Sóley var þó með undirtökin lengst af í leik dagsins og vann bæði settin, 6-2 og 6-4, til að tryggja sér sigur.

Birkir hafði lagt Jónas Pál Björnsson örugglega í undanúrslitum og andstæðingur hans í dag, Raj Bonifacius, vann sömuleiðis öruggan sigur á Smára Antonssyni.

Fyrsta settið var nokkuð jafnt en Birki óx þar ásmegin og hafði betur 6-4. Hann var kominn rækilega í gang í því seinna sem hann vann örugglega 6-0. Birkir er því Íslandsmeistari annað árið í röð og í fimmta skipti alls.