Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafa áhyggjur af göngufólki á Norðurlandi

21.06.2020 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurgeir Haraldsson
„Við vitum að það er mikið af ferðafólki og gönguhópum á Tröllaskaga,“ segir Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á sviði skriðufalla og hættumats hjá Veðurstofu Íslands. Margar tilkynningar bárust Veðurstofunni í gærkvöldi eftir skjálftann um grjóthrun og skriður nyrst á skaganum.

Veðurstofan biðlar til ferðafólks að nota almenna skynsemi, velja góðar leiðir og forðast að vera undir brekkum sem eru þekktar skriðuhlíðar.

Í stórum skjálftum sé algengast að það hrynji úr bröttum hlíðum, sjávarhömrum og eyjum. Jón Kristinn segir að hugsanlega sé von á stærri atburði.

 „Ef við horfum til 2012 voru sex skjálftar stærri en fimm á þessu svæði. Við viljum að fólk sé meðvitað um það þegar það leggur í fjallgöngur og jafnvel í skíðagöngur,“ segir Jón Kristinn. Hugsanlega losni um jarðveg í hverjum skjálfta sem geti leitt til meira hruns og fleiri skriða.

Veðurstofu bárust upplýsingar um að mögulega hafi hrunið úr Málmey í gær. Einnig bárust tilkynningar um minniháttar hrun í Ólafsfirði, Svarfaðardal og á Siglufirði. Veðurstofa hefur ekki vitneskju um grjóthrun eða skriður víðar svo sem í Hörgárdal eða Skagafirði.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV