Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Gleðigöngur um allt land

21.06.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Birkir Blær - RÚV
Gleðigangan í Reykjavík verður með breyttu sniði í ár vegna fjöldatakmarkana. Í þetta sinn verða gleðigöngur haldnar um allt land í stað einnar stórrar göngu. Þetta sagði Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, forseti Hinsegin daga, í viðtali við Felix Bergsson í þættinum Fram og til baka á Rás tvö. 

Gleðigangan hefur verið hápunktur Hinsegin daga undanfarin ár og í sumar verða tuttugu ár síðan hún var gengin í fyrsta sinn. Fyrirkomulagið verður þó öðruvísi en áður. „Nú setjum við þetta svolítið í hendur fólks,“ segir Vilhjálmur.  

Hann segir að stefnt sé að því að ganga víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og um allt land. Hugsanlega gangi til dæmis hópur á Helgafell, einhverjir kringum Rauðavatn og aðrir stiki Fjarðargötuna á Seyðisfirði. 

Vilhjálmur segir að alls staðar verði lagt af stað klukkan 14, laugardaginn 8. ágúst og vonandi megi sjá regnbogaliti víða um landið. Þátttakendur verði hvattir til að deila myndum og myndskeiðum á samfélagsmiðlum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV