Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfitt að halda áfram að skima án hjúkrunarfræðinga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að án hjúkrunarfræðinga verði mjög erfitt að halda áfram skimun fyrir kórónuveirunni. Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst í fyrramálið klukkan átta, ef ekki nást samningar fyrir þann tíma.  

„Það verður mjög erfitt. Við erum að leita leiða til að láta verkefnið ekki stoppa. En það er ljóst að það verður ekki auðvelt,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttastofu. 

„Við verðum svo bara að taka upp aðrar áætlanir ef það gengur ekki“ 

Aðspurður hversu lengi væri hægt að halda áfram að skima án hjúkrunarfræðinga segist hann ómögulega geta spáð fyrir um það að svo stöddu. Næstu dagar muni leiða í ljós hvort sýnataka og smitrakning geti haldið áfram með sama hætti og áður.  

„Við erum bara að skipuleggja fyrsta daginn eða fyrstu dagana. Það verður bara að koma i ljós. Við verðum svo bara að taka upp aðrar áætlanir ef það gengur ekki.“ 

Gegna mikilvægu hlutverki við skimun og smitrakningu

Þórólfur segir hjúkrunarfræðinga ekki hafa verið í því hlutverki að taka sýni. Hjúkrunarfræðingar og læknar hafi hins vegar haft yfirumsjón með skimunum og stýrt þeim á vettvangi. Eins gegni hjúkrunarfræðingar mikilvægu hlutverki við smitrakningar. Hann segir vont að missa hjúkrunarfræðinga úr þessum hlutverkum. 

Aðspurður hvort standi til að sækja um undanþágu vegna þessara starfa segir Þórólfur að það verði gert. 

Kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins hófust aftur í dag klukkan 14:30.