Eitt smit greindist við landamæraskimun

21.06.2020 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eitt smit greindist í gær við landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli. Ekki er vitað hvort það sé hjá einstaklingi sem myndað hefur mótefni. Eitt þeirra þriggja smita sem greind voru á föstudag á flugvellinum er talið virkt samkvæmt Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnarlækni.

Því er talið að alls hafi þrjú virk smit greinst við landamæraskimun síðan flugtakmörkunum var aflétt 15. júní.

Þórólfur sagði í samtali við fréttastofu að framsetning á talningu smitanna ruglist aðeins nú, þar sem oft sé tekin blóðprufa daginn eftir að fólk fái jákvæða niðurstöðu úr skimun fyrir veirunni.

Fjöldi þeirra sem eru í einangrun samkvæmt covid.is er átta. Ört fækkar í sóttkví og eru 344 skráðir í sóttkví í dag miðað við 479 í gær og 501 á föstudag.

Eitt þúsund og fimm sýni voru tekin í gær, þar af voru sextíu og fjögur tekin á Sýkla- og veirufræðideild á Landspítala.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi