Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dorrit telur Samson geta þefað uppi fólk með Covid-19

Mynd: aðsend mynd / RÚV
Samson, klónaður hundur Dorritar Moussaieff, er kominn til landsins. Hann verður í sóttkví fyrst um sinn. Forsetafrúin fyrrverandi segir að Samson sé mun barnvænni en Sámur var. Þá segir hún að ofurnæmt lyktarskyn hans, og annarra hunda geti hjálpað til við að finna fólk sem er smitað af Kórónuveirunni.

Samson er eftirmynd Sáms, sem var áberandi í heimilishaldinu á Bessastöðum í forsetatíð Ólafs Ragnar Grímssonar. Sýni voru tekin úr Sámi og send til fyrirtækis í Texas í Bandaríkjunum sem ræktaði úr þeim frumur. Þeim var svo skipt út fyrir kjarnafrjóvgaðar eggfrumur og komið fyrir í legi tíkur. Samson kom í heiminn í október í fyrra og hefur dvalið í Bandaríkjunum fram að þessu.

„Hann fæddist í október. Ég fékk hann 22. desember þegar ég var í Bandaríkjunum. Ég var með honum þangað til í febrúar. Svo fór ég til Englands, ég þurfti skyndilega að koma aftur til Bandaríkjanna, en allt í einu kom Covid.“ segir Dorrit.

Smitaðist sjálf af veirunni

Í faraldrinum voru þau aðskilin og Dorrit smitaðist sjálf af veirunni. Þá sagði hún að íslenska fjallaloftið, hreina vatnið, orkan og íslenska heilbrigðiskerfið hafi spila lykilþátt í að hún náði heilsu aftur.

„Já ég var í London og á Íslandi. Síðan ætlaði ég að fara strax aftur til Bandaríkjanna en það var ekki hægt. En hann var á mjög góðum stað þar sem hann var þjálfaður og alinn upp með öðrum hundum og líka krökkum. Sámur var ekki mjög góður með krökkum.“ segir Dorrit. 

Og nú í maí gat Dorrit svo sótt Samson til Bandaríkjanna. Þá stóð hún frammi fyrir því að fara með hann til London eða til Íslands. Hún ákvað að koma með hann hingað til lands. Í samræmi við gildandi lög og reglur um innflutning dýra þarf hann að vera tvær vikur í sóttkví. Dorrit segist eiga erfitt með að skilja við Samson í svo langan tíma. Hún hafi vaknað í morgun og hugsað með sér að hún ætti að fara með hann til London þar sem hún getur haft hann hjá sér.

„En síðan fór ég að hugsa að ég gæti ekki meinað honum að vera á Íslandi. Ísland er bara besta land að búa á, ekki bara fyrir dýrin, heldur líka fyrir fólk. Ég skal prófa að vera í dag og á morgun án hans. Ég er mjög selfish, hvernig segir maður selfish á Íslensku? Sjálfselskur. Sjálfselskur já, kannski verð ég að taka hann til London.“
 

Mynd með færslu
Samson lét fara vel um sig í flugvélinni á leiðinni til landsins í gær.

Ef þú færir með hann til London, þyrfti hann þá ekki að fara í einangrun þar?

„Nei! Hann kemur strax með mér.“ segir Dorrit.

Með aðra skapgerð en Sámur

Dorrit segir að Samson sé í mjög góðum höndum í einangrunarstöðinni suður með sjó og hún sýni því skilning að dýr þurfi að vera í einangrun við komuna til landsins.Ferðalagið hafi verið langt og strangt en Samson hafi staðið sig mjög vel. Hún segir að Samson sé einstaklega kurteis og góður hundur og barnvænni en Sámur sálugi var. 

„Hann er miklu betri með krökkum. En ég held að það sé ekki skapgerð hans, heldur hvernig hann var alinn upp.“

Hvernig gekk heimferðin frá Bandaríkjunum og hingað?

„Óvenjulega góður. Ég vissi alls ekki hvort að hann yrði góður, og myndi ekki pissa í vélinni. Við fórum í fjögur flug á leiðinni. Alla leiðina var hann óvenjulega kurteis og mjög mjög góður, ég er mjög hiss af því að hann er bara lítill. Hann er að verða átta mánaða, bara síðan 28. október.“ segir Dorrit.

Ertu farin að sjá einhver einkenni sem þú kannast við frá Sámi?

„Já, það er frightning (óhugnarlegt) mjög mjög líkir.“ segir hún.

 

 

Mynd með færslu
Samson verður í tvær vikur í sóttkví.

Samson minnir á íslendinga

Sámur gamli var mjög tryggur og elskaður af sínum nánustu. Að sögn Dorritar var hann samt engin barnagæla, en það sé Samson hins vegar. Þá sér hún vissa skapgerð í honum sem minnir hana á íslensku þjóðina. 

„Hann er líka mjög thoughtful. Já, hugulsamur? já já. Nema einu sinni, hann klifraði upp úr rúmi beint upp í sófann. Á hann ekki að gera það? Það er allt í lagi gagnvart mér, en við fórum í heimsókn til vina okkar og hann fór beint upp í sófann.“ segir hún.

En hvað bíður ykkar núna, verður Samson hér á Íslandi til framtíðar?

„Ef ég get þolað næstu tvær vikur (meðan hann er í sóttkví), þá já, Ísland er heimili hans, hann er íslendingur. Hann er með alla skapgerð íslendings. Ég veit að það hljómar undarlega en hann er með íslenska skapgerð.“ 

Hvernig þá?

„Svo margt og mismunandi. Bíddu bara þar til þú hittir hann. Ég skal sýna þér. Hann er mjög sérstakur. Mjög mjög sérstakur.“ segir Dorrit.

Þefa uppi Covid-19

Við Háskólasjúkrahúsið í Pennsylvaníu hafi verið gerðar tilraunir til að nota hunda í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Nú þegar hafi sjö hundar fengið þjálfun þar ytra í að þefa uppi þá sem bera veiruna. 

„Ég vil reyna að þjálfa hann til að þefa uppi Covid. Það eru sex hundar í Háskólanum í Pennsilvaníu sem eru í þjálfun við að þefa uppi veiruna og mótefnin. Lyktarskyn Samsons er mjög gott. Sérfræðingar eru búnir að kanna það. Ég vona að ef þetta virkar að þetta geti gagnast Íslandi. Um leið og sóttkvínni lýkur gerum við frekari tilraunir og rannsóknir með þetta. Ég vona bara að ég sé nógu sterk til að bíða þessar tvær vikur af mér.“ segir Dorrit að lokum.

 

Mynd: aðsend mynd / RÚV