Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Alþýðuskáldið Magnús skrifaði um barnaníð í hálfkæringi

Mynd: hi.is / hi.is

Alþýðuskáldið Magnús skrifaði um barnaníð í hálfkæringi

21.06.2020 - 14:30

Höfundar

Sigurður Gylfi Magnússon hefur gefið út bókina Emotional Experience and Microhistory, þar sem hann fjallar um tilfinningalíf Magnúsar Hj. Magnússonar, alþýðuskálds. Sigurður segir álit sitt á Magnúsi hafa beðið hnekki eftir rannsóknarvinnuna.

Bókin fjallar um alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon, sem ýmsir hafa horft til í skáldskap og rannsóknum, frægasta dæmið líklega Heimsljós Halldórs Laxness, en Magnús var fyrirmyndin að Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi.

Sigurður segir Magnús vera freistandi viðfangsefni af mörgum ástæðum. „Hann er mjög fátækur maður, fæddur 1873, í Súðarvíkurhreppi. Hann er sendur í fóstur bara nokkurra vikna gamall til frænda síns, en sá frændi deyr þegar hann er tveggja ára. Hann var góður við hann. Við tekur fóstra hans og synir hennar frá fyrra hjónabandi, sem voru ekki eins notaleg við hann. Hann sætir töluverðri áþján í fóstrinu allt fram undir tvítugsaldur.“

Sótti rétt sinn eftir illa meðferð í æsku

Sigurður segir Magnús hafa verið eins lágt settur í samfélaginu og nokkur gat verið. Þegar hann losnar úr fóstrinu tekur hann strax til við að skrifa dagbók en það sem meira er, hann kærir einnig fólkið sem hann bjó hjá. Það hljómar nokkuð framsækið fyrir þennan tíma, en Sigurður segir Magnús hafa verið á skilsmótum nýja og gamla tímans. „Hann er með annan fótinn í grárri forneskju, en áttar sig á að við sjónarröndina eru ný réttindi og ný tækifæri fyrir fátækt fólk eins og hann.“ Borgararéttindi Magnúsar voru skert alla tíð, þar sem hann náði aldrei að greiða niður fátækrastyrk sem fóstra hans fékk. Meðal annars hafði hann ekki leyfi til að ganga í hjónaband. 

Vó sig upp sem skáldyrðingur

Sigurður segir Magnús hafa fundið tækifæri til að vega sig upp í samfélaginu með áherslu á menntir og menningu. Hann orti vísur og skrifaði handrit upp úr sagfræðilegu efni, sem hann dreifði á kvöldvökur í sínu vestfirska samfélagi. „Hann kallaði sjálfan sig og aðra skáldyrðinga, sem er skemmtilegt orð yfir skáld og fræðimann,“ segir Sigurður.

Mynd með færslu
Magnús Hj. Magnússon (6. ágúst 1873 - 30. desember 1916)

Einsaga - sagan skoðuð út frá brotunum

Tilfinningareynsla og einsaga er titill bókarinnar, en hvað er einsaga? „Þetta er sagnfræðileg aðferð sem varð til á Ítalíu á 8. áratugnum, sem andsaga við því sem við köllum stórsögu. Sagnfræðingar voru alltaf að skýra út stóru þræði samfélagsins, hvort sem það var kristni eða kapítalismi, en þá gleymdust kannski þessi smáatriði sögunnar, sem oft varpa svo skýru ljósi á raunverulega hvernig lífi alþýðufólks vatt fram.“ 

Sigurður segir að póstmódernisminn hafi tekið einsögunni opnum örmum og nefnir hann sjálfan sig sem einn af þeim sem sá gildi hennar. „Okkur fannst að þarna væri ákveðið tækifæri til þess að draga fram brotin í sögunni og gangast við því að sagan verður aldrei sögð sem ein heild, við erum alltaf að vinna með brotin. Og Magnús er ágætt dæmi um þetta brot sem veitir okkur innsýn inn í líf alþýðufólks sem við hefðum ekki haft nokkurn kost á að kynna okkur með jafnmikilli nákvæmni og ég geri í þessari bók, með aðferðum stórsögunnar.“

Afhjúpandi afstaða gagnvart barnaníði

Sigurður segir að hægt sé að skoða Magnús á margan hátt; sem einstakling, sem fátækan mann, út frá handritamenningu, bréfaskrifum, dagbókaskrifum og kveðskap. „Og það er þannig sem Halldór Laxness skoðar hann, hann er alþýðuskáldið. Hið vonlausa alþýðuskáld, hið vonda alþýðuskáld.“ En Sigurður skoðar hann út frá menningu tilfinninganna og meðal þess sem hann skoðar þar er afstaða hans, þegar hann er ákærður fyrir nauðgun. 

„Magnús er tilfinningavera, fátækur maður sem verður ástfanginn, en hann er líka ásakaður um nauðgun. Það er ung stúlka sem hann kenndi til fermingar og hann lýsir því í dagbók sinni hvað raunverulega gerðist. Hann kemur að heimili í Bolungarvík, illa til reika, og sofnar. Hann var eitthvað búinn að fá sér í glas, en hann var ekki vanur því að drekka, svo hann var með einhvern, eins og hann lýsir því, „tilfinningahroll“, þegar hann áttar sig á því að þau eru tvö ein í heimili þá fer hann upp í rúm til hennar, dregur niður í lampanum og „missir sæði“ áður en að samræði kemur. Svo hann lítur svo á að ekkert hafi gerst. Hún hins vegar sakaði hann um þessa misgjörð og hann er í undirrétti sakaður um nauðgun, en réttargögnin eru ekki til.“

Viðmótið er heimild, gögn sýslumanns brunnu

Þar sem gögn sýslumanns brunnu á þriðja áratug síðustu aldar er ekki hægt að lesa um málaferlin öðruvísi en frá sjónarhorni Magnúsar, í dagbókum hans. Sömu sögu er að segja um hin málaferlin sem Sigurður minntist á, þau sem Magnús átti við fóstru sína og hennar syni. 

„Ég skoðaði hvernig hann fjallaði um sams konar mál í dagbókum sínum.“ Sigurður segir að Magnús skrifi reglulega um að einhverjir aðilar hafi verið teknir við misgjörðir gagnvart börnum eða unglingum og hann segi frá því í hálfkæringi.  

Við undirbúning bókarinnar komst Sigurður að því að Magnús hefði skotið máli sínu til Landsyfirréttar. „Þar komst ég yfir rökstuðning verjanda Magnúsar og sækjanda og þar kemur í ljós að hann hefði verið sakaður um svipaðan gjörning áður. Hann hafði áður lagt lag sitt við barn sem hann var að undirbúa fyrir fermingu. Það var aldrei sannað, en þarna kemur í ljós að það eru tvö eða þrjú skipti þar sem hann hefur brotið á skjólstæðingum sínum.“

Breytti skoðun sinni á Magnúsi

Sigurður segir að þetta hafi breytt skoðun sinni á Magnúsi. „Hann er trúlega haldinn einhvers konar barnagirnd. Þegar ég fer að skoða tilfinningalíf hans í þessu ljósi þá sé ég að hann verður ástfanginn af konu sem verður síðar meir nokkuð frægur Íslendingur, Kristín Dahlstedt, sem var veitingakona hér í Reykjavík og Kaupmannahöfn og það var eiginlega komið í veg fyrir að þau mættu eigast, en á sama tíma þá var hann í tygjum við vinnukonu, sem var mjög illa til reika. Hún var flogaveik og hann lýsir henni á mjög andstyggilegan hátt, sem andfúlli og ljótri manneskju. En hann leggur lag sitt við hana og ég fer að velta fyrir mér hvort hann hafi raunverulega leitað að einstaklinga sem var verr settur en hann, til að fá einhvers konar tilfinningalega yfirburði, eða útrás.“

Hélt dagbók í fangelsi

Sigurður segir þetta áhersluna í bók sinni, hann sé að skoða áhrif félagsleg staða hans hefur á hvernig hann upplifir eigin tilfinningar. Hann skoði bæði kveðskapinn og alþýðufræðasamfélagið sem Magnús tilheyrði, en einnig samskipti hans við hitt kynið. „Þetta er held ég eina dagbókin sem við eigum [á íslensku] þar sem fangi heldur dagbók,“ segir Sigurður, en Magnús hélt dagbók meðan hann sat inni í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, fyrir misbeitingu valds síns. 

Það er bókaforlagið Routledge sem gefur bókina út, en vegna kórónuveirufaraldursins hefur pappírsútgáfan tafist, enda hafa prentsmiðjur verið lokaðar í Bretlandi um nokkurt skeið. Bókin er þó fáanleg á rafrænu formi. Nánari upplýsingar má fá á vef Routledge.