
38 dauðir hvolpar með flugi frá Úkraínu til Kanada
Hvolparnir voru allir af tegund franskra bolabíta, sem eru vinsæl gæludýr í Kanada. Þeir voru allir veikburða eftir flugið, glímdu við ofþornun og sumir ælandi, samkvæmt yfirlýsingu matvælastofnunar Kanada. Stofnunin ætlar að ákveða næstu skref þegar rannsókninni verður lokið.
Flugfélagið neitaði að svara spurningum kanadísku fréttastofunnar CBC um hvers vegna um 500 hvolpum var leyft að fara um borð í vélina. Fréttatilkynning var send frá fyrirtækinu þar sem það segist harma dauða dýranna um borð. Flugfélagið vinni náið með yfirvöldum að komast að því hvernig þetta bar að og hyggst gera breytingar til þess að slíkt komi ekki fyrir aftur. Ukraine International er aðili að Alþjóðaflugsamgöngustofnuninni, IATA. Þar er kveðið á um að flugfélög eigi að setja reglur og tryggja örugga flutninga lifandi dýra. CBC segir reglur flestra kanadískra flugfélaga á þá leið að aðeins tvö dýr í búrum fái að fljúga með hverri vél. Þá neita þau flest að fljúga með dýr í búri ef hiti er hærri en 29,5 stig.
Hundruð milljóna virði
Hvolpasala er algeng í Kanada. Flestir sem kaupa hvolpa telja þá ræktaða í Kanada, en að sögn Scott Weese, við háskólann í Guelph, er engin leið að vita hversu margir hvolpar eru fluttir inn til landsins. Hann sagði jafnvel líkur á að skipulögð glæpasamtök flytji inn hvolpa. Af þessari tegund geti hver hvolpur selst á um þrjú til fjögur þúsund kanadadali, jafnvirði um 300 til 400 þúsund króna. 500 hvolpar væru því að fara á alls 1,5 til tvær milljónir kanadadala, eða um 150 til 300 milljónir króna.