Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Valdi í Hjólakrafti er Reykvíkingur ársins

Mynd: Guðmundur Bergkvist / Skot
Þorvaldur Daníelsson, eða Valdi í Hjólakrafti eins og hann er kallaður, er Reykvíkingur ársins 2020. Markmið Hjólakrafts er að hvetja ungt fólk til að hjóla.  

„Þetta er mikill heiður og það hafa örugglega margir verið tilnefndir. Það eru svo ótrúlega margir sem eru að gera mikið af flottum og merkilegum hlutum um alla borg. Og það er bara ótrúlega mikill heiður að vera sá sem fær útnefninguna,“ segir Þorvaldur í samtali við Fréttastofu. 

Dundaði sér við að landa fyrsta laxinum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, veitti Þorvaldi nafnbótina við hátíðlega athöfn við Elliðaárnar. Þar landaði Þorvaldur fyrsta laxi ársins, þrátt fyrir að vera slasaður á fæti.

„Það slitnaði hjá mér hásin um daginn, ekki á hjólinu reyndar. Þannig ég fékk að sitja á kolli og dunda mér við að landa fyrsta laxinum í ánni. Það er víst hefð fyrir því að sá sem hefur fengið útnefninuna fær að opna ána.“

Þrátt fyrir að Þorvaldur sé ekki mikill veiðimaður gekk veiðin vel. „Það kom bara einn strax, alveg.“

„Það geta allir hjólað sem hafa lært það einu sinni“

Hugmyndin að Hjólakrafti kviknaði þegar Þorvaldur starfaði hjá Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein og hjólin byrjuðu að snúast þegar hann fór að vinna að því í samvinnu við Landspítalann að fá ungt fólk með margvísleg heilsufarsvandamál til að hjóla.  

Í dag snertir Hjólakraftur líf 500 manns með margvíslegan vanda. Þorvaldur er með samninga við ýmsa grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu en vinnur einnig með framhaldsskólanemum. Hjólakraftur hefur höfuðstöðvar í húsnæði sem borgin leigir til ýmissa samtaka og einstaklinga í verslunarkjarna í Breiðholti.  

„Þegar ég var tvítugur snerist lífið bara um að vinna og vinna og koma sér fyrir í lífinu. En líkaminn var að grotna niður. Þannig að ég byrjaði að hjóla. Hjólreiðar eru frábært fjölskyldusport og góð hreyfing til að koma sér í form. Það geta allir hjólað sem hafa lært það einu sinni. Maður getur ef til vill ekki spilað fótbolta við börnin en það geta allir sem geta setið á reiðhjóli hjólað saman,“ segir Þorvaldur, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV